FRÉTT FERÐAÞJÓNUSTA 30. APRÍL 2021

Greiddar gistinætur á öllum tegundum gististaða í mars síðastliðnum drógust saman um 64% samanborið við mars 2020. Þar af fækkaði gistinóttum á hótelum um 72%, um 58% á gistiheimilum og um 46% á öðrum tegundum skráðra gististaða (farfuglaheimilum, orlofshúsum o.s.frv.).

Greiddar gistinætur ferðamanna á öllum gististöðum voru um 98.000 í mars en þær voru um 322.000 í sama mánuði árið áður. Íslenskar gistinætur voru um 77.000 sem er 164% aukning frá fyrra ári. Um 79% gistinátta voru skráðar á Íslendinga og 21% á erlenda gesti eða um 21.000 nætur. Gistinætur á hótelum og gistiheimilum voru um 65.000, þar af 48.700 á hótelum.

Framboð hótelherbergja í mars minnkaði um 37,4% frá mars 2020. Herbergjanýting á hótelum var 14,0% og dróst saman um 16,2 prósentustig frá fyrra ári.

Gistinætur á hótelum í mars voru 48.700 og dróst hótelgisting í mánuðinum saman á milli ára í öllum landshlutum nema á Norðurlandi. Mestur var samdrátturinn á höfuðborgarsvæðinu þar sem gistinóttum í mars fækkaði úr 108.000 í 17.900 á milli ára eða um 83%. Á sama tíma dróst framboð hótelherbergja á höfuðborgarsvæðinu saman um 56% á milli ára um leið og herbergjanýting féll um 23 prósentustig og var hún 15,4% í mars. 11.100 gistinætur voru á Norðurlandi í mars sem er 9% aukning frá fyrra ári. Framboð hótelherbergja á Norðurlandi dróst saman um 23% frá mars 2020 en herbergjanýting hækkaði á sama tíma um 5,9 prósentustig, í 22,9%.

Gistinætur, framboð og nýting á hótelum
  Mars Apríl-mars
Gistinætur á hótelum20202021%2019-20202020-2021%
Alls174.51548.742-72%4.328.856808.116-81%
Höfuðborgarsvæði107.98917.853-83%2.406.751243.089-90%
Suðurnes12.0024.171-65%379.93264.174-83%
Vesturland og Vestfirðir8.8724.595-48%239.86497.133-60%
Norðurland10.13911.0709%321.250163.403-49%
Austurland2.772701-75%116.56948.328-59%
Suðurland32.74110.352-68%864.490191.989-78%
Þjóðerni
Íslendingar20.15039.68997%432.494548.88327%
Erlendir gestir154.3659.053-94%3.896.362259.233-93%
 Framboð og nýting hótelherbergja Herbergjafjöldi á hótelum í mars Herbergjanýting hótela í mars
20202021%20202021prst
Alls10.6166.646-37%30,2%14,0%-16,2
Höfuðborgarsvæði5.2422.331-56%38,2%15,4%-22,8
Suðurnes7737801%27,7%10,7%-17,0
Vesturland og Vestfirðir845623-26%19,3%13,5%-5,8
Norðurland1.128865-23%17,0%22,9%5,9
Austurland339224-34%15,6%6,0%-9,6
Suðurland2.2891.823-20%25,5%10,4%-15,1

Gistinætur erlendra ferðamanna á hótelum í mars drógust saman um 94% á milli ára en íslenskar gistinætur jukust um 97%. Gistinætur Íslendinga voru 39.700, eða 81% af hótelgistinóttum, á meðan erlendar gistinætur voru 9.100 eða 19%. Á tólf mánaða tímabili frá apríl 2020 til mars 2021 var heildarfjöldi gistinátta á hótelum um 808.100 sem er 81% fækkun frá sama tímabili ári áður.

Rétt er að hafa í huga að um miðjan mars í fyrra var fyrsta samkomubann til að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar sett á og ferðamannastraumur til landsins dróst verulega saman.

Þar sem landamærarannsókn Ferðamálastofu og Hagstofu Íslands liggur niðri, vegna mikillar fækkunar brottfara frá Keflavíkurflugvelli, var ekki unnt að áætla fjölda erlendra gistinátta á stöðum sem miðla heimagistingu í gegnum Airbnb og svipaðar síður en þær voru um 47.000 í mars 2020.

Lýsigögn
Gistináttatölur fyrir hótel koma úr gistináttagrunni Hagstofu Íslands. Eins og fyrr greinir koma fáar brottfarir frá Keflavíkurflugvelli í veg fyrir öflun gagna fyrir landamærarannsókn Ferðamálastofu og Hagstofu Íslands og liggur hún því niðri þar til aðstæður breytast. Á meðan eru ekki birtar áætlaðar tölur um gistinætur utan hefðbundinnar gistináttaskráningar. Lýsigögn um fjölda gististaða, gesta og gistinátta má nálgast á vef Hagstofunnar.

Allar tölur fyrir 2020 og 2021 eru bráðabirgðatölur nema gistináttatölur hótela en fyrir þær eru bráðabirgðatölur fyrir mars 2021. Áætlun fyrir aðrar tegundir gististaða en hótel er um þessar mundir háð meiri óvissu en vanalega fyrir tilstilli örra breytinga á framboði og nýtingu og því er rétt að taka þeim tölum með sérstökum fyrirvara þar til endanlegar tölur liggja fyrir. Verið er að yfirfara tölur um gistinætur fyrir árið 2020. Í ljósi mikilla breytinga sem orðið hafa á gistimarkaði er sú vinna tímafrekari en ella og má búast við einhverjum töfum á birtingu endanlegra talna fyrir árið 2020.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1000 , netfang gistiskyrslur@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.