FRÉTT FERÐAÞJÓNUSTA 05. ÁGÚST 2004

Gistinóttum á hótelum í júní fjölgaði um 11% milli ára
Gistinætur á hótelum í júní síðastliðnum voru 111.656 en voru 100.570 árið 2003.  Gistinóttum fjölgaði í öllum landshlutum nema á Austurlandi.  Aukningin var mest á Suðurlandi þar sem gistinætur fóru úr 12.511 í 14.816 milli ára og fjölgaði þar með um rúm 18%.  Á Norðurlandi eystra og vestra nam aukningin tæpum 14% þegar gistinæturnar fóru úr 10.633 í 12.108.  Á höfuðborgarsvæðinu voru gistinætur á hótelum í júní síðastliðnum 70.375 en voru 63.521 árið 2003, sem er aukning um tæp 11%.  Á Suðurnesjum, Vesturlandi og Vestfjörðum fjölgaði gistinóttum um tæp 8%, en gistináttafjöldinn fór úr 8.948 í 9.643 milli ára.  Á Austurlandi fækkaði gistinóttum um tæp 5%, fóru úr 4.957 í 4.714. 
Fjölgun gistinátta á hótelum í júní á bæði við um íslenska (18%) og erlenda hótelgesti (10%).

Gistináttafjöldi á hótelum janúar-júní eykst um rúm 7% milli ára
Ef skoðaðir eru fyrstu sex mánuðir ársins miðað við árið í fyrra má sjá að gistinóttum á hótelum fjölgaði í öllum landshlutum.  Heildargistináttafjöldinn fyrir allt landið var 415.060 miðað við 386.441 árið  2003.  Aukningin var þó hlutfallslega mest á Austurlandi, eða rúm 26%.  Á öðrum landsvæðum nam aukningin 5-8% fyrir tímabilið janúar-júní.  Gistinóttum Íslendinga fjölgaði um tæp 11% og gistinóttum útlendinga um rúm 6%.

Tölur fyrir 2004 eru bráðabirgðatölur og eru tölur fyrir aðra mánuði ársins uppfærðar mánaðarlega.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.