FRÉTT FERÐAÞJÓNUSTA 12. JÚLÍ 2023

Heildarfjöldi skráðra gistinátta ferðamanna á Íslandi var um 8,55 milljónir árið 2022 en þær voru um fimm milljónir árið 2021. Gistinóttum fjölgaði um allt land á milli ára, mest á höfuðborgarsvæðinu, þar sem þær meira en tvöfölduðust, en minnst á Norðurlandi þar sem þeim fjölgaði um 22%.

Gistinætur á hótelum og gistiheimilum voru um 5,85 milljónir árið 2022, um 1,46 milljónir í annarri innigistingu og gistinætur á tjaldsvæðum voru um 1,24 milljónir.

Heildarfjöldi gistinátta árið 2022 jókst því um 70,5% á milli ára. Þar af var 80,6% fjölgun á hótelum og gistiheimilum, 74,6% fjölgun var í annarri innigistingu og 32,1% aukning á tjaldsvæðum.

Vegna kórónuveirufaraldursins var óvenju stór hluti gistinátta árin 2020 og 2021 vegna innlendra ferðamanna. Aukning á fjölda gistinátta árið 2022 var fyrst og fremst til komin vegna fjölgunar erlendra ferðamanna. Gistinætur innlendra ferðamanna voru um 1,97 milljónir sem er 1,5% aukning frá fyrra ári en gistinóttum erlendra ferðamanna fjölgaði um 114% og voru þær um 6,58 milljónir.

Mikil fjölgun var á gistinóttum erlendra ferðamanna fyrir alla landshluta og gistitegundir, einna minnst á Norðurlandi (71%) en mest á höfuðborgarsvæðinu (144%). Gistinóttum Íslendinga fjölgaði á milli ára á höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum og Suðurlandi en fækkaði í öðrum landshlutum. Fækkunin var hlutfallslega mest á Norðurlandi, eða úr 460.000 í 353.000 (23%), og munaði þar mest um þriðjungs fækkun gistinátta innlendra ferðamanna á norðlenskum tjaldsvæðum.

Hagstofa Íslands birtir mánaðarlega fyrstu áætlun um gistingu á öllum tegundum gististaða í fyrri mánuði. Þessar tölur hafa nú verið uppfærðar. Samkvæmt fyrstu áætlunum var heildarfjöldi skráðra gistinátta árið 2022 um 8.847.000 en endanlegur fjöldi reyndist 8.547.000 eða um 3,3% lægri. Gistinætur innlendra ferðamanna reyndust 5,9% fleiri en við upphaflegar áætlanir en gistinætur erlendra ferðamanna 5,9% færri.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1000 , netfang gistiskyrslur@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.