Heildarútgjöld erlendra ferðamanna hér á landi námu ríflega 263 milljörðum króna árið 2015 samanborið við ríflega 197 milljarða króna árið 2014. Hlutdeild útgjalda vegna farþegaflutninga með flugi í heildarútgjöldum erlendra ferðamanna hefur dregist saman síðustu ár, var 28,9% árið 2009 en 21,9% árið 2015. Á sama tíma hefur hlutdeild gistiþjónustu farið vaxandi í heildarútgjöldum erlendra ferðamanna á Íslandi, en hún var 21,3% árið 2015, samanborið við 18,8% árið 2009.


Árið 2015 fjölgaði erlendum ferðamönnum um tæplega 27% samanborið við árið áður. Árið 2015 var heildarfjöldi ferðamanna 1.587.071. Þar af voru 297.946 daggestir með skemmtiferðaskipum en þeim fjölgaði um 18% frá árinu 2014. Fjöldi næturgesta var 1.289.125 og voru þeir 29% fleiri en árið áður.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í þeim töflum ferðaþjónustureikninga sem nú ertu birtar fyrir árin 2014 og 2015 og eru aðgengilegar á vef Hagstofu Íslands. Fleiri töflur verða uppfærðar á næstunni, meðal annars um útgjöld innlendra ferðamanna á Íslandi og framleiðsluvirði í ferðaþjónustu.

Ferðaþjónustureikningar eru hliðarreikningar þjóðhagsreikninga og er ætlað að leggja mat á hlut ferðaþjónustunnar í hagkerfinu og þróun hennar sem atvinnugreinar. Haustið 2015 voru birtar tölur fyrir árið 2013 en að þessu sinni eru birtar tölur á afmörkuðum sviðum fyrir bæði árin 2014 og 2015. Sérstök áhersla er lögð á tölur um útgjöld erlendra ferðamanna á Íslandi auk talnaefnis um fjölda ferðamanna og gistinátta. 

Talnaefni