FRÉTT FÉLAGSMÁL 19. ÁGÚST 2016

Vinsamlegast athugið að þessari fréttatilkynningu var breytt 21. apríl 2017 09:50 frá upprunalegri útgáfu.

Árið 2015 fengu 6.996 heimili fjárhagsaðstoð sveitarfélaga og hafði heimilum sem þáðu slíkar greiðslur fækkað um 753 (9,7%) frá árinu áður. Árið 2014 fækkaði heimilum með slíka aðstoð um 283 (3,6%) milli ára. Árin þar á undan fjölgaði heimilum hins vegar árlega og hafði fjölgað að jafnaði um 627 ári frá árinu 2007. Breyting í fjölda fjárhagsaðstoðarþega hefur haldist í hendur við þróun atvinnuleysis eins og kemur fram í myndinni, sem sýnir fjölda viðtakenda fjárhagsaðstoðar og árlegt hlutfall atvinnuleysis árin 2003 til 2015.

 

Frá árinu 2014 til 2015 lækkuðu útgjöld sveitarfélaganna vegna fjárhagsaðstoðar um 251 milljón króna eða 5,3%, en á föstu verðlagi lækkuðu þau um tæplega 7%. Meðalmánaðargreiðslur fjárhagsaðstoðar hækkuðu á sama tíma um 5 þúsund krónur eða 4,2%, en á föstu verðlagi hækkuðu þær um tæp 3%. Fjöldi mánaða sem fjárhagsaðstoð var greidd að meðaltali var áþekkur milli ára, 4,9 mánuðir að meðaltali 2015, en 4,8 mánuðir 2014.

Af þeim heimilum sem fengu fjárhagsaðstoð árið 2015 voru sem fyrr einstæðir barnlausir karlar (44,3% heimila) og einstæðar konur með börn (24,7% heimila) fjölmennustu hóparnir. Árið 2015 voru 38% viðtakenda fjárhagsaðstoðar atvinnulausir og þar af fimm sjöttu án bótaréttar, alls 2.172 einstaklingar.

Á heimilum sem fengu fjárhagsaðstoð árið 2015 bjuggu 11.371 einstaklingar eða 3,4% þjóðarinnar, þar af voru 3.736 börn (17 ára og yngra) eða 4,7% barna á þeim aldri. Árið 2014 bjuggu 12.625 einstaklingar eða 3,8% þjóðarinnar á heimilum sem fengu fjárhagsaðstoð, þar af voru 4.203 börn eða 5,3% barna.

Fimmti hver 65 ára og eldri nýtur félagslegrar heimþjónustu
Árið 2015 nutu 9.075 heimili félagslegrar heimaþjónustu. Fjögur af hverjum fimm þessara heimila voru heimili aldraðra eða 7.283 (80,3%) og hafði þeim fjölgað um 340 (4,9%) frá árinu 2014. Á þessum heimilum aldraðra bjuggu 9.149 einstaklingur og jafngildir það 19,9% landsmanna 65 ára og eldri. Í Reykjavík naut tæplega fjórðungur (22,0%) 65 ára og eldri félagslegrar heimaþjónustu.

Lítil fjölgun barna í dagvist á einkaheimilum
Árið 2015 nutu 1.718 börn dagvistar á einkaheimilum og hafði þeim fjölgað um 19 (1,1%) frá árinu á undan. Alls voru 6,2% barna 0 til 5 ára í slíkri dagvistun árið 2015. Rúm 6% allra barna á fyrsta ári voru í dagvistun á einkaheimili og rúm 32% eins árs barna, en það eru börn sem ekki hafa náð leikskólaaldri.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1257 , netfang bjorn.g.stefansson@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.