FRÉTT FÉLAGSMÁL 19. OKTÓBER 2009

Út eru komin Hagtíðindi í efnisflokknum heilbrigðis-, félags- og dómsmál um almannatryggingar og velferðarmál. Í ritinu er gefið yfirlit um útgjöld hins opinbera til almannatrygginga og velferðarmála samkvæmt COFOG-flokkunarkerfi Sameinuðu þjóðanna. Undir þann málaflokk falla ýmsar félagslegar tilfærslur til einstaklinga, s.s. vegna elli, örorku, veikinda, tekjumissis, fæðinga og atvinnuleysis, og ýmis velferðarþjónusta, einkum við börn, aldraða og fatlaða. Einnig er gerð grein fyrir útgjöldum til almennrar félagsverndar hér á landi samkvæmt ESSPROS-flokkunarkerfinu, en það nær til afskipta opinberra aðila og einkaaðila af félagsvernd. Þá er gerð grein fyrir meginhagstærðum félagsverndar á Norðurlöndum og í ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins.

Af helstu niðurstöðum má nefna að heildarútgjöld hins opinbera til almannatrygginga og velferðarmála hafa vaxið verulega síðasta aldarfjórðung eða úr tæplega 5,7% af landsframleiðslu árið 1980 í ríflega 8,9% af landsframleiðslu 2008, en það samsvarar 132 milljörðum króna á því ári. Hafa velferðarútgjöldin ríflega þrefaldast að magni á tímabilinu (220% vöxtur) miðað við verðvísitölu samneyslu og ríflega tvöfaldast á mann (129% vöxtur). Árið 2008 runnu 413 þúsund krónur til þessa málaflokks á mann samanborið við 181 þúsund krónur í byrjun níunda áratugarins á verðlagi 2008.

Útgjöld hins opinbera vegna almannatrygginga og velferðarmála eru greind niður í níu meginundirflokka. Útgjöld til fjölskyldna og barna er umfangsmesti útgjaldaliðurinn, en til þess málaflokks runnu rúmlega 37,6 milljarðar króna 2008, eða 2,5% af landsframleiðslu. Hækkunin milli ára nam 4 milljörðum króna. Útgjöld vegna örorku og fötlunar námu 34,9 milljörðum króna og hækkuðu um 6,6 milljarða króna milli ára. Þá námu útgjöld vegna öldrunar 33,1 milljarði króna og hækkuðu um 4 milljarða króna milli ára. Framlög vegna atvinnuleysis voru 5,4 milljarðar króna 2008 og hækkuðu um 2,3 milljarða króna frá fyrra ári.

Útgjöld til félagsverndar árið 2008 samkvæmt ESSPROS námu 325,6 milljörðum króna eða 22,1% af landsframleiðslu. Um 40% útgjaldanna 2008 voru vegna slysa og veikinda (heilbrigðismála), en það samsvarar ríflega 8,8% af landsframleiðslu. Til verkefna vegna öldrunar fóru rúmlega 22% útgjaldanna eða 4,9% af landsframleiðslu. Þá vógu útgjöld vegna örorku og fötlunar og sömuleiðis fjölskyldna og barna þungt, en ríflega 13% útgjalda til félagsverndar runnu til hvors verkefnasviðs eða 2,9% af landsframleiðslu. Til fyrrgreindra fjögurra verkefnasviða runnu um 89% heildarútgjalda til félagsverndar.

Samanburður á félagsvernd milli Norðurlanda og ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu sýna að árið 2006 ráðstöfuðu Svíar til dæmis 30,7% af landsframleiðslu sinni til félagsverndar og Danir 29%. Norðmenn aftur á móti 22,6%, Færeyingar 24% og Finnar 26,3%. Á því ári rann 21% landsframleiðslu hér á landi til félagsverndar eða 247 milljarðar króna. Á Evrópska efnahagssvæðinu runnu að meðaltali 26,9% af landsframleiðslu ríkja þess til félagsverndar árið 2006.

Almannatryggingar og velferðarmál 2008 - Hagtíðindi

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.