Gagnaöflun Hagstofu Íslands í ljósi svarbyrði fyrirtækja og heimila

Eftir Hallgrím Snorrason fyrrverandi hagstofustjóra.

Inngangur

Allt fram á síðustu ár hefur Hagstofa Íslands safnað mestu af gögnum sínum úr opinberum skrám. Mikill vöxtur í hagskýrslusamstarfi Evrópuríkja, þátttaka Íslendinga í samstarfinu innan Evrópska efnahagssvæðisins frá árinu 1994 og vaxandi innlendar kröfur til hagskýrslugerðar hafa hins vegar haft í för með sér að nauðsynlegt hefur reynst að auka til muna beina gagnasöfnun frá fyrirtækjum og heimilum. Hér á landi er einstaklingum og fyrirtækjum skylt að lögum að veita Hagstofunni upplýsingar til hagskýrslugerðar. Hagstofan verður engu síður að taka tillit til þeirrar fyrirhafnar, sem upplýsingagjöf bakar þeim sem veita upplýsingarnar, hún tekur ævinlega nokkurn tíma og getur krafist vinnu af svarendum.

Meðal hagskýrslufólks er gjarnan talað um fyrirhöfn fyrirtækja og heimila af því að láta í té gögn til hagskýrslugerðar sem svarbyrði þeirra. Eftir því sem bein gagnaöflun hefur aukist hefur athygli Hagstofunnar beinst í vaxandi mæli að svarbyrðinni, hvernig megi afla nauðsynlegra hagskýrslugagna án þess að svarbyrðin verði meiri en góðu hófi gegnir. Nauðsynlegt þykir að tekist sé á við þetta viðfangsefni, sérstaklega í ljósi fámennisins hér á landi og smæðar efnahagslífsins.

Hvað varðar einstaklinga og heimili er hætt við að fólk lendi oftar í könnunum Hagstofunnar en hjá hinum Norðurlandaþjóðunum sem eru 20-30 sinnum fjölmennari en Íslendingar. Hvað fyrirtækin snertir byggist ýmis gagnasöfnun til hagskýrslugerðar á þátttöku sömu fyrirtækja mánuð eftir mánuð, ár eftir ár. Þetta stafar meðal annars af því af því að hér eru tiltölulega fá stór fyrirtæki en mörg lítil. Þá eiga stór fyrirtæki oft auðveldar með að veita umbeðnar upplýsingar, þau reka öflug upplýsingakerfi sem sjaldnar er til að dreifa meðal lítilla fyrirtækja og hjá einyrkjum. Af þessum sökum beinist athygli Hagstofunnar nú mjög að svarbyrðinni og er hún farin að skipta meginmáli í gagnasöfnunarstefnu hennar, ekki síst þegar litið er til langs tíma.

Erlendis hefur það færst í vöxt að reynt sé að mæla byrði fyrirtækja af því að sinna kröfum stjórnvalda um upplýsingar, svo sem vegna skattskila, flutninga á vörum eða fjármagni yfir landamæri, opinbers eftirlits, alls kyns umsókna um ýmiss konar leyfi til rekstrar, bygginga o. fl. Veiting upplýsinga til hagskýrslugerðar er talin með en fyrirhöfnin af henni er þó yfirleitt aðeins brot af heildarfyrirhöfn fyrirtækja og einstaklinga við að láta hinu opinbera í té upplýsingar. Í sumum ríkjum hafa stjórnvöld sett sér markmið um að draga úr þessari svarbyrði og innleitt aðgerðir í því skyni. Hagstofa Íslands hefur enn sem komið er ekki reynt að meta árlega svarbyrði fyrirtækja og heimila af gagnasöfnun til hagskýrslugerðar. Hins vegar er leitast við að stilla spurningum í hóf, í símakönnunum er fylgst með svarbyrði í hverri könnun og lengd viðtala er jafnan áætluð fyrirfram og mæld meðan á könnun stendur.

Hér á eftir verður í stuttu máli gerð grein fyrir aðferðum, aðgerðum og stefnumiðum Hagstofunnar á þessu sviði.


Gagnasöfnun meðal fyrirtækja

Notkun opinberra skráa

Opinberar skrár eru langmikilvægustu gagnalindir fyrir opinbera hagskýrslugerð hér á landi. Skrár skattyfirvalda eru undirstaða hagskýrslna um efnahagsmál og fyrirtæki og skýrslugerð um utanríkisverslun byggist á skrám tollstjóra. Hagstofan hefur lagt mikla vinnu í að auka og auðvelda hagnýtingu stjórnvaldsskráa með því að reyna að hafa áhrif á innihald þeirra og skipulag nýrra skráa til þess að þær gagnist sem best til hagskýrslugerðar. Á þessu sviði má sérstaklega nefna framfarir á tveimur vígstöðum, notkun samræmds ársreiknings fyrir öll fyrirtæki í landinu og uppbyggingu nýrrar skrár yfir alla launþega, laun þeirra og staðgreiðslu, en þessi skrá byggist á skýrslum launagreiðenda til skattyfirvalda. Samræmdu ársreikningarnir eru einkum hagnýttir við gerð þjóðhagsreikninga og fyrirtækjaskýrslna en launþegaskráin gagnast aðallega til hagskýrslugerðar um vinnumarkað, laun og fyrirtæki. Þessar nýju skrár eru afar mikilvægar gagnalindir hvor á sínu sviði og gefa færi á umfangsmikilli gagnavinnslu við tiltölulega lítinn kostnað. Hagnýting stjórnvaldsskráa til hagskýrslugerðar er hins vegar ætíð vandasöm eins og vel er þekkt meðal hagskýrslufólks á Norðurlöndum. Vandinn stafar aðallega af því að innihald skránna ræðst af stjórnvaldsþörfum fremur en af hagskýrsluþörfum. Auk þess byggjast skrár, sem varða fyrirtæki, á fyrirtækjunum sjálfum sem einingum, en fyrir hagskýrslugerðina væri gagnlegra að geta greint einstakar rekstrareiningar fyrirtækja í blönduðum rekstri.

Gagnasöfnun með tölvupósti og vef

Bein gagnasöfnun Hagstofu Íslands varðar fyrst og fremst hagskýrslugerð um vöruframleiðslu, birgðir, rekstur sjávarútvegsfyrirtækja, landbúnað, ferðaþjónustu, nýsköpun fyrirtækja, rannsóknir og þróun, upplýsingatækni, laun, skólamál, félagsþjónustu, fjármál sveitarfélaga auk þess sem nýlega er hafin gagnasöfnun til reglubundinna mælinga á vísitölu framleiðsluverðs. Til þess að gera fyrirtækjunum og stofnunum lífið léttar við að láta í té gögn hefur Hagstofan komið spurningaeyðublöðum fyrir á vefsíðum sínum og gert svarendum kleift að senda Hagstofunni útfyllt eyðublöð með tölvupósti eða bréfapósti. Þetta hefur gefið góða raun. Stefnt er að því að þróa þetta frekar, meðal annars með vefframtal skattyfirvalda sem fyrirmynd, en fyrirtækin þekkja vel til þess og eru vön að vinna með rafrænt framtal. Markmiðið er að þeir sem láta gögn í té geti náð í fyrri gagnaframtöl sín, vistað gagnaframtöl sem unnið er með og kallað þau fram eftir þörfum meðan á útfyllingu stendur. Ennfremur verði búið svo um hnútana að upplýsingar og leiðbeiningar birtist þegar bendli er rennt yfir hlutaðeigandi svæði á gagnaframtalinu. Fyrirmynda er einnig að leita hjá hagstofum nágrannaríkja en þar er nú víða unnið að þróun gagnasöfnunar um veraldarvefinn. Þetta þykir gefa mjög góða raun þar sem reynsla er fengin af þessum aðferðum en sameiginleg reynsla allra er að þessi þróunarvinna sé fjárfrek í bráð þótt víst þyki að hún skili ávinningi þegar til lengdar lætur.

Nýjungar í gagnasöfnun fyrir vísitölu framleiðsluverðs

Söfnun upplýsinga frá fyrirtækjum fyrir vísitölu framleiðsluverðs er meðal helstu nýjunga í gagnasöfnun Hagstofunnar. Við skipulag og uppbyggingu vísitölu framleiðsluverðs kannaði Hagstofan áhuga og getu fyrirtækja til að afhenda í þessu skyni hrágögn úr upplýsingakerfum sínum beint til Hagstofunnar. Að hluta var þetta gert til að draga úr svarbyrði fyrirtækja og auka áhuga þeirra á þátttöku í reglubundinni rannsókn á þessu sviði, en einnig til að Hagstofan fengi aðgang að meiri og sundurliðaðri gögnum en ella. Þetta er sérstaklega mikilvægt í þessu verkefni þar sem athyglin beinist að nettóverði, þ.e.a.s. ekki einasta að upplýsingum um listaverð heldur um endanlegt verð án vörsluskatta og afslátta sem einstakir viðskiptamenn njóta. Þetta verkefni hefur þótt mjög metnaðarfullt en virðist ætla að reynast árangursríkt. Í ljósi þess hefur Hagstofan hug á að útvíkka þessa gagnasöfnun þannig að hún spanni frekari upplýsingar, til dæmis gögn um framleiðslu fyrirtækjanna. Með þessu yrði dregið úr svarbyrði fyrirtækja en reglubundið gagnaflæði til Hagstofunnar tryggt.

Aðgangur að launakerfum fyrirtækja

Auk þess sem hér hefur verið rakið um gagnasöfnun fyrir vísitölu framleiðsluverðs hefur Hagstofan og þó sérstaklega samstarfsaðili hennar, Kjararannsóknarnefnd aðila vinnumarkaðarins, langa reynslu af beinum gagnaflutningi úr launabókhaldskerfum fyrirtækja. Þetta hefur meðal annars byggst á því að Hagstofan og Kjararannsóknarnefnd hafa náð samkomulagi við hugbúnaðarfyrirtæki, sem framleiða og selja launabókhaldskerfi, um innihald skránna, þ.e. upplýsingar um laun, launategundir, álög, vinnutíma, launatengd gjöld og fleiri atriði, og uppbyggingu skránna með að láta í té samræmda færslulýsingu fyrir launabókhaldskerfi. Hefur þá verið tekið tillit til þarfa fyrirtækjanna fyrir launaútreikning og launaupplýsingar, þarfa aðila vinnumarkaðarins fyrir launaskýrslur, krafna skattyfirvalda um launaupplýsingar og þarfa hagskýrslugerðar hins opinbera. Framkvæmd þessa hefur meðal annars verið háð kostnaðarþátttöku af opinberri hálfu auk þess sem Kjararannsóknarnefnd og Hagstofan hafa lagt fyrirtækjunum til aðstoð við að innleiða og beita viðeigandi stöðlum á þessu sviði, svo sem flokkunarkerfum fyrir atvinnugreinar, starfsstéttir og menntun, og við að flokka og kóða einstök störf og starfsmenn.

Aðgengi að upplýsingakerfum fyrirtækja um sölu og framleiðsluverð og að launabókhaldskerfum er meðal annars mikilvægt fyrir þá sök að það gerir kleift að greina starfsemi fyrirtækja eftir rekstrareiningum en ekki eingöngu eftir fyrirtækjum eins og oftast er raunin hvað snertir upplýsingar úr stjórnvaldsskrám.

Takmörkun kannana á notkun upplýsingatækni til að draga úr svarbyrði

Hagstofa Íslands hefur undanfarin ár gert nokkrar kannanir meðal fyrirtækja á notkun upplýsingatækni og rafrænum viðskiptum. Hér er um samræmdar evrópskar rannsóknir að ræða sem sniðnar eru eftir forskriftum hagstofu ESB og með nokkurri kostnaðarþátttöku hennar, síðast árið 2003. Þrátt fyrir samkomulag á sviði hagskýrslusamstarfs EES og kostnaðarþátttöku hefur Hagstofan ákveðið nýlega að gera ekki árlegar kannanir af þessu tagi á næstunni. Þetta er gert til að draga úr svarbyrði fyrirtækja og með hliðsjón af takmörkuðum fjárráðum Hagstofunnar. Þá er litið til þess að íslensk fyrirtæki eru framarlega í notkun upplýsingatæknibúnaðar og árleg könnun veitir því minni nýja vitneskju um það atriði en ella væri. Við þessar aðstæður má ennfremur reikna með því að síendurteknar kannanir valdi gremju meðal fyrirtækjanna þar sem þau álíta að innihald þeirra varði að meira eða minna leyti spurningar um sjálfsagða hluti sem þau hafi auk þess svarað áður. Þessi sjónarmið eru eðlileg og þau ber að virða. Tekið skal fram að vera má að þörf verði á árlegri rannsókn á ný ef breyttir starfs- og viðskiptahættir gefa tilefni til þess.


Gagnasöfnun frá einstaklingum og heimilum

Aukin svarbyrði

Bein gagnasöfnun Hagstofunnar frá einstaklingum og heimilum hefur aukist til mikilla muna undanfarin ár. Árin 1985-2000 fóru neyslukannanir Hagstofunnar, eða rannsóknir á útgjöldum heimila eins og þær eru nú nefndar, fram fimmta hver ár. Frá árinu 2000 er þessi rannsókn sífellt í gangi. Árin 1991-2002 fór vinnumarkaðsrannsókn Hagstofunnar fram tvisvar á ári en frá og með árinu 2003 er þessi rannsóknin sífelld samkvæmt reglum og forskriftum hagskýrslusamstarfs EES. Samræmd lífskjararannsókn EES hófst á árinu 2004 og er hrein viðbót við kannanir meðal heimila. Aðrar reglubundnar úrtaksathuganir meðal heimila eru nú fyrst og fremst rannsóknir á notkun heimila á tæknibúnaði og interneti.

Telja má að hér á landi sé einkum við þrenns konar vandamál að stríða hvað snertir aukningu á beinni gagnasöfnun Hagstofunnar meðal einstaklinga og heimila. Tvö þessara vandamála eru alþjóðleg en hið þriðja er sérstakt fyrir Íslendinga og e.t.v. aðrar þjóðir af svipaðri stærð.

Þau vandamál, sem hér um ræðir og eru vel þekkt á alþjóðavettvangi, eru annars vegar aukin meðvitund fólks um gagnaleynd og hins vegar mikil samkeppni um svarendur í úrtaksathugunum af ýmsum toga, svo sem ýmsum vísindarannsóknum, markaðsrannsóknum og viðhorfs- og skoðanakönnunum. Ljóst er að aukin vitund samfélagsins um gagnaleynd og persónuvernd hafa valdið vandkvæðum við söfnun einstaklingsbundinna gagna fyrir hvers kyns rannsóknaraðila. Á Íslandi virðist þetta hafa komið í minna mæli niður á Hagstofunni en hjá einkaaðilum og öðrum sem stunda gagnasöfnun á viðskiptagrundvelli. Svarhlutföll í úrtaksathugunum Hagstofunnar hafa farið heldur lækkandi en margt bendir til að það ráðist aðallega af vaxandi þreytu svarenda og minnkandi þolinmæði þeirra með öllum gerðum af beinum könnunum.

Fámennið hér á landi veldur sérstökum vandkvæðum við úrtaksathuganir. Til þess að niðurstöður úrtaksathugana verði marktækar og sundurgreinanlegar að einhverju leyti þarf hlutfallslega mun stærri úrtök fyrir litlar þjóðir en stórar. Vegna þessa og hins hve þjóðin er fámenn lenda sömu einstaklingar og heimili tiltölulega oft í úrtaki. Svarbyrðin verður af þessum sökum meiri hér en meðal nágrannaþjóðanna og því áleitnara vandamál þar sem þetta kann að hafa í för með sér að fólk fáist síður til þátttöku en ella.

Aðgerðir til að takmarka svarbyrði einstaklinga og heimila

Hagstofan hefur undanfarin ár gripið til ýmissa ráðstafana til að gera heimilum og einstaklingum auðveldara að taka þátt í úrtaksrannsóknum hennar. Sérstaklega má nefna eftirfarandi aðgerðir:

Kassakvittanir. Þátttakendur í rannsókn Hagstofunnar á útgjöldum heimilanna eru hvattir til að skila kassakvittunum yfir dagleg heimilisútgjöld í stað þess að skrá þau í ítrustu sundurliðun í þar til gerð búreikningshefti. Þetta felur í sér mikinn vinnusparnað fyrir heimilin og öruggari og nákvæmari upplýsingar fyrir Hagstofuna (t.d. nákvæm vöruheiti, magn vöru og upplýsingar um hvar, hvenær og hvernig viðskiptin áttu sér stað). Þá gefur þetta Hagstofunni færi á að stemma af upplýsingarnar. Um 75% af öllum færslum sem skráðar eru í útgjaldarannsókninni byggjast á kassakvittunum. Þess má geta að Hagstofa Íslands tók upp þessa aðferð árið 1995 fyrst allra hagstofa. Aðferðin hefur vakið mikla athygli á alþjóðavettvangi og er henni nú beitt í nokkrum mæli af tveimur öðrum evrópskum hagstofum.

Símareikningar. Rannsóknin á útgjöldum heimila krefst viðamikilla og sundurgreindra upplýsinga um símaþjónustu. Það mundi taka óratíma að skrá alla þá talnasúpu en auk þess eru upplýsingar ekki alltaf fyrir hendi, til dæmis þegar símareikningurinn er ekki tiltækur þar sem hann er greiddur af banka eða á vefnum. Þátttakendur eru í staðinn hvattir til þess að veita Hagstofunni skriflegt umboð til þess að fá þessar upplýsingar beint frá hlutaðeigandi símafyrirtækjum samkvæmt sérstöku samkomulagi milli hennar og fyrirtækjanna.

Upplýsingar um fasteignir. Þátttakendur í rannsókn á útgjöldum heimila þurfa einungis að svara lágmarksupplýsingum um húsnæði sitt. Þær fasteignaupplýsingar sem þörf er á vegna rannsóknarinnar, svo sem um fasteignamat, brunabótamat, gerð fasteignarinnar, stærð hennar o.fl. eru fengnar beint úr landskrá fasteigna.

Upplýsingar um tekjur. Upplýsingar um tekjur þeirra heimila, sem taka þátt í útgjaldarannsókninni og öðrum rannsóknum þar sem þeirra er þörf, eru fengnar úr skattskrám samkvæmt þeim heimildum sem Hagstofan hefur til þessa í skattalögum.

Fækkun spurninga í könnunum. Auk þess sem hér hefur verið rakið, hefur Hagstofan lagt ríka áherslu á að einfalda spurningar eða fella niður spurningar sem ekki er beinlínis þörf á þar sem upplýsinganna má afla úr öðrum heimildum. Þetta var meðal annars mikilvægur þáttur í undirbúningi samfelldu útgjaldarannsóknarinnar sem sett var á laggirnar í byrjun ársins 2000. Sem dæmi má nefna að í vissum tilvikum eru upplýsingar um meiri háttar útgjaldaliði í heild sinn fengnar úr útgjaldarannsókninni en aðrar og ítarlegri heimildir eru hagnýttar til sundurliðunar í einstaka undirflokka útgjaldanna. Þetta gildir meðal annars um gögn heilbrigðismálaráðuneytis um skiptingu lyfjaútgjalda, upplýsingar Bifreiðaskráningar Íslands um kaup á nýjum bílum o.fl. Evrópska lífskjararannsóknin, sem var gerð í fyrsta sinn á tímabilinu mars-maí 2004, fól að nokkru leyti í sér spurningar sem koma fyrir í öðrum könnunum eða þar sem upplýsingar er að finna í stjórnsýsluskrám. Viðtölin í þessari rannsókn tóku býsna langan tíma, sérstaklega í upphafi, og ekki síst af þeirri ástæðu verður spurningalistinn endurskoðaður áður en næsta rannsóknarlota hefst í því skyni að einfalda og fella brott spurningar.

Mælingar á svarbyrði

Eins og áður er getið er á Hagstofunni leitast við að meta og fylgjast með svarbyrði í öllum úrtaksathugunum en ekki hefur verið reynt að mæla svarbyrði í heild og þróun hennar frá einu ári til annars. Blaise-kerfið sem Hagstofan beitir í öllum símakönnunum, gefur gott færi á að mæla tímalengd viðtala og er kerfinu beitt í sífellu í þessu skyni. Rannsóknin sem viðtalið er liður í, getur hins vegar krafist undirbúnings af þátttakendum og í þeim tilvikum er viðtalstíminn ekki nægur mælikvarði á svarbyrði. Þess háttar spurningar komu fyrir í fyrstu gerð Hagstofunnar af evrópsku lífskjarakönnuninni og eru taldar hafa valdið þátttakendum nokkrum vandkvæðum, ekki síst hinum elstu sem oftar en ekki leitast við að veita sem bestar og nákvæmastar uplýsingar. Þessir sem og aðrir eiginleikar rannsóknarinnar varða kannaðir vandlega áður en rannsóknin verður endurtekin.

Þátttaka í úrtaksrannsóknum

Samkvæmt gildandi verklagsreglum Hagstofunnar er komið í veg fyrir að fjölskylda, sem lendir í úrtaki í rannsókn á útgjöldum heimila, geti lent í úrtaki á ný næstu tvö árin. Sama regla gildir um vinnumarkaðsrannsókn Hagstofunnar. Nauðsynlegt er að endurskoða þessar reglur með hliðsjón af svarbyrði heimilanna af öllum könnunum. Ýmislegt er líkt eða jafnvel eins í vinnumarkaðsrannsókn Hagstofunnar og evrópsku lífskjararannsókninni. Ætti þetta þá að hafa í för með sér að einstaklingar sem lenda í vinnumarkaðsrannsókn eigi að fá frí frá bæði þeirri rannsókn og lífskjararannsókninni næstu tvö árin? Ætti e.t.v. einnig að taka rannsókn á útgjöldum heimilanna með í þennan reikning og hvað þá með kannanir á notkun upplýsingabúnaðar og interneti? Að svo stöddu eru spurningarnar um þetta efni mun fleiri en viðhlítandi svör.


Leyndarkvaðir og meðferð trúnaðargagna

Við lestur þessarar greinar dylst engum að til hagskýrslugerðar sinnar safnar Hagstofan margvíslegum upplýsingum um einkahagi einstaklinga, heimila og fyrirtækja. Við þessa gagnasöfnun er ævinlega fylgt þeim meginreglum að allar upplýsingar sem Hagstofan safnar til hagskýrslugerðar og snerta tilgreinda einstaklinga eða lögaðila, skuli fara með sem trúnaðarmál og þær eingöngu nýttar til hagskýrslugerðar. Þá skal þess gætt við birtingu og miðlun hagskýrslna að ekki sé unnt að rekja upplýsingarnar til tilgreindra einstaklinga eða lögaðila. Undantekningar frá þessu eru aðeins gerðar ef hlutaðeigandi hefur samþykkt þess háttar birtingu eða um er að ræða stjórnvaldsupplýsingar sem teljast opinber gögn.

Hagstofan leggur afar ríka áherslu á þessar trúnaðarkvaðir. Allir starfsmenn ríkisins eru bundnir af lagaákvæðum um trúnað í starfi. Starfsfólki Hagstofunnar er skylt að halda trúnað og gæta fyllstu þagmælsku um öll trúnaðargögn, trúnaðarupplýsingar og trúnaðarmál sem það verður áskynja í starfi sínu og leynt skulu fara. Þetta er brýnt fyrir öllu starfsfólki, lausráðnu sem fastráðnu, og enginn má hefja störf fyrr en hann hefur undirritað heit um trúnað og þagmælsku.

Reglur Hagstofunnar og starfshættir hvað snertir meðferð hagskýrslugagna eru í fullu samræmi við Meginreglur Sameinuðu þjóðanna um opinbera hagskýrslugerð. Þær eru ennfremur í samræmi við algengustu siðareglur á alþjóðavettvangi sem snerta tölfræði og hagskýrslugerð (sjá t.d. siðareglur Alþjóða tölfræðistofnunarinnar).

Hagstofufólki er það ljóst að tilvera hennar og hagskýrslugerðarinnar byggist á því að gætt sé trúnaðar í hvívetna og að því megi treysta fullkomlega að allt sé gert til þess að enginn misbrestur verði á því. Engin dæmi eru um þess háttar trúnaðarbrest og er kostað kapps um að á því verði engin breyting.


Framtíðaráform

Hagstofa Íslands beinir nú kröftum sínum fyrst og fremst að tveimur verkefnum til að gera gagnasöfnun sína frá fyrirtækjum skilvirkari og auðveldari fyrir þau. Annars vegar er lögð áhersla á að auka upplýsingagjöf um vef eins og áður var tæpt á. Jafnframt er unnið að því að kanna möguleika á að samhæfa gagnasöfnun frá fyrirtækjum í einn samræmdan farveg eða eina allsherjar könnun. Þetta þykir skipta miklu máli til að tryggja framhald á samstarfi Hagstofunnar og fyrirtækja í landinu um öflun gagna til opinberrar hagskýrslugerðar. Þá er nú lögð áhersla á að draga úr tíðni kannana ef sýnt þykir að hver ný könnun veitir litlar viðbótarupplýsingar og efna ekki til sérstakra kannana ef mögulegt er að afla upplýsinga úr tiltækum gögnum stjórnsýslunnar. Hér ráða allt í senn, sjónarmið um kostnað, skilvirkni og svarbyrði.

Sömu sjónarmið eru uppi um rannsóknir meðal einstaklinga. Sífellt er leitað leiða til þess að auðvelda fólki að taka þátt í úrtaksathugunum Hagstofunnar, ekki síst með hagnýtingu opinberra gagna og tiltækra rafrænna gagna. Þá er brýnt að fara vandlega yfir þá aðferðafræði og reynslu sem til er um hve oft og með hve löngu millibili megi leita til einstaklinga með þátttöku í úrtaksathugunum.

Hagskýrslugerð Hagstofu Íslands verður aldrei betri en gögnin sem hún hefur aflað. Því er henni fátt nauðsynlegra en að hlúa sem best að samskiptum sínum og samvinnu við einstaklinga, fyrirtæki og stofnanir um reglubundna öflun gagna sem eru grundvöllur tölfræði um efnahags- og samfélagsmál og stefnumótunar og aðgerða til að treysta undirstöður og framfarir samfélagsins.