Hvað gerir Hagstofan?

 • Hagstofa Íslands er sjálfstæð stofnun og hefur forystu um að samhæfa opinberar hagtölur. Hagstofan safnar tölfræðilegum upplýsingum um íslenskt samfélag, vinnur úr þeim og miðlar til notenda. Miðlun hagtalna stuðlar að upplýstri þjóðfélagsumræðu og er grundvöllur lýðræðislegra ákvarðana.
 • Hagstofan leggur áherslu á góða þjónustu og fagmennsku þar sem áreiðanleiki og skilvirkni eru höfð að leiðarljósi. Til að mæta auknum kröfum, innlendum og erlendum, er stöðugt unnið í þróun vinnsluferla. Nánar um starfsáætlun og gæðastefnu.
 • Starfsmenn Hagstofunnar vinna m.a. eftir lögum Hagstofu Íslands og meginreglum í evrópskri hagskýrslugerð og taka virkan þátt í alþjóðlegu samstarfi. Upplýsingar um starfsemi og rekstur eru birtar opinberlega í ársskýrslu

Útgefið efni

 • Nær öllu efni Hagstofunnar er miðlað í opnu aðgengi og lögð er áhersla á notendavæna framsetningu gagna.
 • Öllum eru heimil afnot af efni Hagstofunnar en geta skal heimildar.
 • Hagstofan birtir öllum notendum sínum allt efni samtímis kl. 9 á birtingardegi samkvæmt birtingaráætlun.
 • Upplýsingar um gögnin er að finna á viðkomandi efnissíðum, s.s. lýsigögn og aðferðir og flokkun.
 • Notendur geta verið í áskrift að fréttum Hagstofunnar og fengið sendan tölvupóst á birtingardegi viðkomandi efnis. Einnig er hægt skrá sig í RSS-fréttaveitu.
 • Talnaefni er miðlað í gegnum PX-Web. Hægt er að vista niðurstöður í nokkur skráarform og fá tengil með niðurstöðum leitar sendann í tölvupósti. Einnig er hægt að vista niðurstöður  í eigin kerfum (API).
 • Nær allt efni á vef Hagstofunnar er einnig á ensku.

Fyrirspurnir, sérvinnslur og gögn til rannsókna

 • Hagstofan er opin mánudaga til fimmtudaga frá kl. 9.00–16.00 og föstudaga frá kl. 9.00–12.00. Starfsfólk veitir upplýsingar í síma 528-1100. Hægt er að senda almennar fyrirspurnir á netfangið upplysingar@hagstofa.is eða í gegnum vefsíðu Fyrirspurnum er svarað eins fljótt og auðið er.
 • Hægt er að óska eftir sérvinnslu á gögnum umfram það sem birt er á vef Hagstofunnar. Allar sérvinnslur eru gjaldskyldar og greitt er fyrir þær samkvæmt gjaldskrá Hagstofu Íslands.
 • Hagstofunni er heimilt samkvæmt lögum að veita rannsóknaraðilum aðgang að gögnum með upplýsingum um einstaklinga eða rekstrareiningar þar sem auðkenni hafa verið afmáð. Sækja þarf um slíkt aðgengi til Hagstofunnar og greiða fyrir þjónustuna.

Þátttaka í rannsóknum, gagnaskil og meðferð trúnaðargagna

 • Einstaklingar og rekstraraðilar sem lenda í úrtaki í rannsóknum Hagstofunnar fá sent bréf með ítarlegum upplýsingum um tiltekna rannsókn og hvernig staðið verður að gagnasöfnun.
 • Fyrirtækjum og einstaklingum í atvinnurekstri er skylt að veita Hagstofunni umbeðnar upplýsingar um umsvif sín og rekstur. Hagstofan hefur heimild í lögum til að sekta þá sem skirrast við að skila umbeðnum gögnum á tilsettum tíma.
 • Allar upplýsingar sem Hagstofa Íslands safnar til hagskýrslugerðar og snerta tilgreinda einstaklinga eða lögaðila er farið með sem trúnaðarmál. Við birtingu og miðlun hagskýrslna er komið í veg fyrir eins og kostur er að rekja megi upplýsingar til einstaklinga eða lögaðila. Nánar um gögn til vísindarannsókna.