Velta samkvæmt virðisaukaskattskýrslum


0. Skráningaratriði fyrir viðfangsefni


0.1 Heiti

Velta samkvæmt virðisaukaskattskýrslum

0.2 Efnisflokkur

Fyrirtæki

0.3 Umsjón; stofnun, deild, sérfræðingur o.s.frv.

Hagstofa Íslands
Fyrirtækjatölfræði
Sími 528-1260

0.4 Tilgangur og aðdragandi

Samkvæmt lögum um Hagstofu Íslands (163/2007) skal birta tölfræðilegar upplýsingar um landshagi Íslands. Einn liður í því er að birta tölur um veltu í einstökum atvinnugreinum.

0.5 Notendur og notkunarsvið

Tölum um fjölda veltu skv. virðisaukaskattskýrslum er ætlað að gefa grófa mynd af þróun atvinnulífs til skamms tíma og árstíðasveiflum í einstökum atvinnugreinum.

Allar tölur eru bráðabirgðatölur. Við birtingu nýrra talna eru eldri tölur endurskoðaðar, yfirleitt til hækkunar vegna síðbúinna gagna. Sjá nánar í kafla 3 Áreiðanleiki og öryggismörk.

0.6 Heimildir

Virðisaukaskattsgögn frá Ríkisskattstjóra og fyrirtækjaskrá Hagstofu Íslands.

0.7 Lagalegur grundvöllur fyrir hagskýrslugerð

Lög um Hagstofu Íslands nr. 163/2007.

0.8 Svarbyrði við innsöfnun

Engin. Gögn koma rafrænt frá Ríkisskattstjóra.

0.9 Ákvæði vegna EES og ESB

Á ekki við.

1. Efni


1.1 Efnislýsing

Velta samkvæmt virðisaukaskattskýrslum.

1.2 Tölfræðileg hugtök

Atvinnugreinaflokkar: Notað er flokkunarkerfið ÍSAT2008 og flokkun skv. fyrirtækjaskrá Hagstofu Íslands. Velta er flokkuð eftir aðalatvinnugrein rekstraraðila.

Lög um virðisaukaskatt
: Lög 50/1988 með síðari breytingum. Sjá lagasafn á heimasíðu Alþingis (althingi.is).

Virðisaukaskattstímabil: Yfirleitt tveir almanaksmánuðir, janúar-febrúar, mars-apríl o.s.frv. Margir bændur eiga kost á því að skila virðisaukaskattskýrslu hálfsárslega. Þeir sem hafa mjög litla veltu geta skilað virðisaukaskattskýrslu árlega.

Velta skv. virðisaukaskattskýrslum: Velta án virðisaukaskatts. Hér er talin með öll virðisaukaskattskyld velta og velta undanþegin virðisaukaskatti. Velta í þjónustu sem er undanþegin virðisaukaskatti er ekki talin með, enda kemur hún ekki fram í virðisaukaskattskýrslum.

Hærra þrep virðisaukaskatts, eða almennt þrep, er í dag 24%. Í þessu þrepi eru allar tegundir vöru og þjónustu sem ekki eru flokkaðar í öðrum þrepum samkvæmt lögum um virðisaukaskatt.

Lægra þrep virðisaukaskatts er í dag 11% skv. 14. grein laga um virðisaukaskatt. Í þessu þrepi eru m.a. bækur, tímarit, hitaveita, rafmagn til húshitunar, matvara, þjónusta veitingahúsa, gistiþjónusta, farþegaflutningar innanlands (aðrir en áætlunarflutningar) og þjónusta ferðaskrifstofa. Áfengi er í lægra þrepi síðan í ársbyrjun 2016 en var áður í hærra þrepi.

Velta undanskilin virðisaukaskatti skv. 12. grein laga um virðisaukaskatt: Ekki þarf að greiða virðisaukaskatt af þessari veltu, en þó er skylt að skila virðisaukaskattskýrslum og hægt er að fá endurgreiddan þann virðisaukaskatt sem hefur verið greiddur til að afla tekna. Útflutningur á vöru og þjónustu er undanskilinn virðisaukaskatti. Sem dæmi um útflutta þjónustu má nefna millilandaflug og -siglingar; og utanlandsferðir sem íslenskar ferðaskrifstofur selja. Samningsbundnar greiðslur úr ríkissjóði vegna mjólkurframleiðslu og sauðfjárframleiðslu eru einnig undanskildar virðisaukaskatti.

Þjónusta undanskilin virðisaukaskatti:
Ýmis konar þjónusta er að öllu leyti undanskilin virðisaukaskatti skv. 2. grein laga um virðisaukaskatt. Veltu í þess konar þjónustu á ekki að telja með í virðisaukaskattskýrslum og ekki er hægt að fá endurgreiddan þann virðisaukaskatt sem rekstraraðilar hafa greitt í tengslum við þessa þjónustu. Eðli málsins samkvæmt er þjónusta af þessu tagi ekki talin með í hagtölum um veltu skv. virðisaukaskattskýrslum. Sem dæmi um þjónustu sem er undanþegin virðisaukaskatti má nefna almenningssamgöngur, læknisþjónustu, íþróttastarfsemi, happadrætti og fasteignasölu.

Meiri upplýsingar um virðisaukaskatt má finna á heimasíðu Ríkisskattstjóra:
https://www.rsk.is/atvinnurekstur/virdisaukaskattur/vsk-fyrir-byrjendur/

2. Tími


2.1 Viðmiðunartími talnaefnis

Tveggja mánaða tímabil:
  • janúar-febrúar,
  • mars-apríl,
  • maí-júní,
  • júlí-ágúst,
  • september-október og
  • nóvember-desember.

2.2 Vinnslutími

Fyrstu tölur eru gefnar út tveimur og hálfum mánuði eftir að viðmiðunartímabili lýkur, þ.e. rúmum mánuði eftir að virðisaukaskattskyldir aðilar eiga að vera búnir að skila upplýsingum til Ríkisskattstjóra.

2.3 Stundvísi birtingar

Í samræmi við birtingaráætlun sem er á vef Hagstofu Íslands.

2.4 Tíðni birtinga

Á tveggja mánaða fresti.

3. Áreiðanleiki og öryggismörk


3.1 Nákvæmni gagna og áreiðanleiki

Helsta gagnalindin eru virðisaukaskattskýrslur rekstraraðila frá Ríkisskattstjóra. Áreiðanleiki gagna er háður því að þessi lögboðna skylda sé virt og framtölin rétt fyllt út.

Atvinnugreinaflokkun er skv. ÍSAT2008 og byggir á Fyrirtækjaskrá Hagstofu Íslands. Flest fyrirtæki falla innan skilgreiningar einnar atvinnugreinar samkvæmt ÍSAT 2008 staðlinum en sum stærri fyrirtæki eru í fleiri en einni atvinnustarfsemi. Í þeim tilvikum ræður sú atvinnugrein sem færir fyrirtækinu hærri rekstrartekjur. Dæmi um fyrirtæki í einni eða fleiri starfsemi eru sjávarútvegsfyrirtæki sem eru bæði í veiðum og vinnslu. Fiskveiðar tilheyra deild 03, fiskveiðar og fiskeldi, en fiskvinnsla tilheyrir deild 10, matvælaframleiðslu. Í þessu talnaefni og í eru flokkar "031 Fiskveiðar" og "102 Fiskvinnsla". teknir saman.

3.2 Skekkjuvaldar í gögnum

Helstu skekkjuvaldar geta verið villur í virðisaukaskattskýrslum eða að fyrirtæki/einstaklingar skili ekki inn gögnum til Ríkisskattstjóra. Einnig geta fyrirtæki verið flokkuð í ranga atvinnugrein.

3.3 Tölur um öryggismörk/skekkjumælingar

Ekki verða áætluð skekkjumörk fyrir þessar hagtölur. Þó eru birtar upplýsingar um samband milli fyrstu talna og endurskoðaðra talna. Sjá nánar í kafla 4.3 Samband milli bráðabirgðatalna og lokatalna".

4. Samanburður


4.1 Samanburðarhæfi milli tímabila

Gögnin eru almennt samanburðarhæf milli tímabila innan árs og milli ára þar sem samræmdum aðferðum er beitt frá ári til árs við vinnslu gagna.

Undantekningar:
  • Þeir sem eru með mjög litla, minni en 2 milljón króna án virðisaukaskatts á hverju 12 mánaða tímabili frá því rekstur hófst, eru undanþegnir skráningarskyldu á virðisaukaskattskrá. Velta þeirra telst því ekki með í tölum um veltu skv. virðisaukaskattsskýrslum.
  • Sumir skila virðisaukaskattskýrslu á ársgrundvelli. Í veftöflum Hagstofu er velta þeirra birt með veltu á tímabilinu nóvember-desember. Árið 2016 var velta þeirra sem skiluðu árlega um 7 milljarðar króna eða um 0,2% af allri veltu það ár.
  • Flestir bændur skila virðisaukaskattskýrslu hálfsárslega. Í veftöflum Hagstofu er velta þeirra fyrri hluta árs, janúar-júní, birt með veltu á tímabilinu maí-júní og velta seinni hluta árs birt með veltu á tímabilinu nóvember-desember. Árið 2016 var velta bænda sem skiluðu virðisaukaskattskýrslu hálfsárslega 15 milljarðar króna á fyrri hluta árs og 22 milljarðar króna á seinni hluta árs. Þegar verið er að skoða veltu í landbúnaði ætti annaðhvort að nota veltu á hálfs árs tímabilum eða veltu á heilum árum.
  • Sjá nánar um fyrirkomulag á heimasíðu Ríkisskattstjóra: https://www.rsk.is/atvinnurekstur/virdisaukaskattur/vsk-fyrir-byrjendur/
  • Breyting verður á því hvað telst virðisaukaskattskyld þjónusta. Dæmi um þetta er að í ársbyrjun 2016 varð þjónusta ferðaskrifstofa virðisaukaskattskyld.
  • Skattstofninn breytist. Sem dæmi má nefna að í ársbyrjun 2016 var áfengi fært úr efra skattþrepi í neðra. Um leið var áfengisgjald hækkað og var leitast við að verð til neytenda breyttist ekki. Þetta leiddi til þess að virðisaukaskattskyld velta, þar sem áfengisgjald er meðtalið, hækkaði.
  • Það getur einnig verið smávægilegt misræmi milli ára ef margir rekstraraðilar skipta um atvinnugrein. Í Fyrirtækjaskrá Hagstofu miðast atvinnugreinaflokkun við almanaksár og ef fyrirtæki skiptir um atvinnugrein þá er það talið vera í þeirri atvinnugrein frá upphafi ársins sem skiptin eiga sér stað.

4.2 Samanburður við aðrar hagtölur

Hér er fjallað um veltu skv. virðisaukaskattsskýrslum og því er velta í þjónustu sem er undanskilin virðisaukaskatti ekki talin með. Þetta er nauðsynlegt að hafa í huga þegar borið er saman við aðrar hagtölur.

Hagstofa Íslands birtir einnig Rekstrar- og efnahagsyfirlit fyrirtækja. Þau gögn eru oft betri heimildir um þróun einstakra atvinnugreina til langs tíma þar sem í þeim má fá upplýsingar um sumar tegundir þjónustu sem er undanþegin virðisaukaskatti, t.d. ferðaskrifstofur til ársloka 2015. Einnig er stundum eru gerðar leiðréttingar í skattskýrslum sem sjást ekki í virðisaukaskattstölum sem Hagstofa hefur. Í Rekstrar- og efnahagsyfirliti fyrirtækja eru þó aðeins fyrirtæki sem skila skattskýrslu. Opinberir aðilar og ýmsar stofnanir eru þurfa ekki að skila skattskýrslum. Þessum undanþágum fækkar þó mikið frá og með skattárinu 2015.

4.3 Samband milli bráðabirgðatalna og lokatalna

Allar tölur eru bráðabirgðatölur. Tölur geta breyst eftir fyrstu birtingu vegna síðbúinna skila rekstraraðila og þegar rekstraraðilar leiðrétta fyrri tölur. Hagstofa fær upplýsingar um leiðréttingar fram á mitt ár árið eftir að leiðréttingar eiga sér stað, þ.a. upplýsingar sem skila sér seinna til Ríkisskattstjóra eru ekki með í þessum hagtölum.

Tölur geta einnig breyst afturvirkt ef fyrirtæki skiptir um atvinnugrein, en slíkar breytingar gilda alltaf afturvirkt í Fyrirtækjaskrá Hagstofu, a.m.k. aftur til seinustu áramóta og stundum lengra aftur í tíma.

Að jafnaði hækka tölur frá fyrstu til annarrar birtingar. Þetta er þó breytilegt og eftir því sem atvinnugreinar eru minni er meiri hætta á miklum sveiflum.

Tölulegar upplýsingar um endurskoðun birtra hagtalna má finna á:
https://www.hagstofa.is/media/50372/endurskodun_hagtalna_vsk_velta_islenska.pdf

5. Aðgangur að upplýsingum


5.1 Miðlunarleiðir

  • Fréttir birtar á vef Hagstofunnar
  • Hagtölur, efnisflokkaðar veftöflur

5.2 Grunngögn; varðveisla og notkunarmöguleikar

Grunngögn eru varðveitt sem trúnaðarupplýsingar á Hagstofunni. Aðgangur að grunngögnum er bundin við þá starfsmenn Hagstofunnar sem vinna með gögnin. Sjá nánar á: https://hagstofa.is/thjonusta/

5.3 Skýrslur

Sjá ofan.

5.4 Aðrar upplýsingar

Frekari upplýsingar má fá hjá Fyrirtækjasviði Hagstofu.

© Hagstofa �slands, �ann 28-2-2018