Opinber fjármál


0. Skráningaratriði fyrir viðfangsefni


0.1 Heiti

Opinber fjármál

0.2 Efnisflokkur

Opinber fjármál

0.3 Umsjón; stofnun, deild, sérfræðingur o.s.frv.

Gunnar Axel Axelsson
Hagstofa Íslands
Deild þjóðhagsreikninga og opinberra fjármála
netfang: gunnar.axelsson@hagstofa.is
sími: 528 1121

0.4 Tilgangur og aðdragandi

Fjármál hins opinbera ná fyrst og fremst til þeirrar starfsemi í hagkerfinu þar sem tekna er aflað með álagningu skatta. Tilgangur reikninga um fjármál hins opinbera er því að gefa yfirlit yfir tekjur, útgjöld, eignir og skuldir hins opinbera og sömuleiðis mikilvægustu jöfnuði í rekstri þess, s.s. rekstrar- og tekjujöfnuð. Reikningar hins opinbera eru gerðir samkvæmt staðli Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um fjármál hins opinbera (e. The Government Finance Statistics Manual, 2001 (GFSM 2001)), þjóðhagsreikningakerfi Evrópusambandsins (ESA95) og málaflokkasundurliðun Sameinuðu þjóðanna (e. The Classification of the Functions of Government (COFOG)). Nýjasta endurskoðun varðandi talnaefni hins opinbera var gerð í byrjun árs 2007 og nær til tímabilsins 1998-2006. Eldra meginefni um opinber fjármál nær aftur til ársins 1980. Á eftirfarandi vefföngum er hægt að nálgast ofannefnda staðla.

http://www.imf.org/external/pubs/ft/gfs/manual/index.htm
http://forum.europa.eu.int/irc/dsis/nfaccount/info/data/ESA95/en/esa95en.htm
http://unstats.un.org/unsd/cr/registry/regcst.asp?Cl=4

Í samræmi við GFSM 2001 eru tekjur flokkaðar eftir hagrænu eðli í skatttekjur, tryggingagjöld, fjárframlög og aðrar tekjur. Þá eru útgjöld hins opinbera flokkuð eftir hagrænu eðli en einnig eftir málaflokkum samkvæmt COFOG staðlinum. Auk reikninga fyrir hið opinbera eru gerðir reikningar fyrir undirgeira hins opinbera, þ.e. ríkissjóð, sveitarfélög og almannatryggingar. Opinberar tölur um fjármál hins opinbera á ársgrundvelli ná aftur til ársins 1945, en til eru sögulegar tímaraðir allt aftur til ársins 1870. Frá og með árinu 2004 hafa ársfjórðungslegir tekju- og útgjaldareikningar verið birtir fyrir hið opinbera og undirgeira þess.

0.5 Notendur og notkunarsvið

Uppgjör á fjármálum hins opinbera eru notuð í margvíslegum tilgangi, bæði til lengri og skemmri tíma litið. Skýrslugerð af þessu tagi sýnir hvernig til hefur tekist í rekstri hins opinbera innan ársins og yfir lengra árabil og þar með hver efnahagsleg áhrif hins opinbera og undirgeira þess hafa verið. Uppgjörið sýnir umfang hins opinbera í þjóðarbúskapunum eins og heildartekjur, heildarskatta, heildarútgjöld og fleira. Þá koma fram upplýsingar um peningalegar eignir og skuldir hins opinbera og þar með umfang þeirra á fjármálamörkuðum.

Uppgjör á fjármálum hins opinbera eru grunnur að spám um líklega framvindu opinberra fjármála og eru notuð í því skyni meðal annars af fjármálaráðuneytinu og Seðlabanka. Bankar, launþega- og atvinnurekendasamtök og ýmis önnur samtök nota einnig slík uppgjör til að draga fram áhugaverðar upplýsingar varðandi einstaka tekju- og útgjaldaliði hins opinbera. Alþjóðasamtök eins og Sameinuðu þjóðirnar, OECD, IMF og Evrópusambandið nota uppgjör á fjármálum hins opinbera til að fylgjast með þróun opinberra fjármála og við samanburð á hagstærðum milli landa.

0.6 Heimildir

Uppgjör á fjármálum hins opinbera eru fyrst og fremst byggð á eftirfarandi heimildum:
· Ríkisreikningur
· Ársreikningar stærstu sveitarfélaga
· Samantekt Sambands íslenskra sveitarfélaga á ársreikningum sveitarfélaga
· Ársreikningur Tryggingastofnunar ríkisins
· Ársreikningur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga
· Ársreikningaskýrslur Fjármálaeftirlitsins um lífeyrissjóði
· Vísitölur neysluverðs og vísitala byggingarkostnaðar
· Launavísitala

0.7 Lagalegur grundvöllur fyrir hagskýrslugerð

Sjá lög um Hagstofu Íslands og opinbera hagskýrslugerð nr. 163/2007.

0.8 Svarbyrði við innsöfnun

Í meginatriðum má segja að uppgjör á fjármálum hins opinbera byggi á bókhaldsgögnum þeirra aðila sem undir það falla. Varðandi ársfjórðungsuppgjör sveitarfélaga þá er byggt á úrtaki þar sem gagnasöfnunarlisti er sendur stærstu sveitarfélögum landsins. Svarbyrðin er í lágmarki.

0.9 Ákvæði vegna EES og ESB

Í reglugerð Evrópusambandsins nr. 2223/96 er kveðið á um samræmdar aðferðir við gerð þjóðhagsreikninga og þar með reikninga hins opinbera í ríkjum ESB og EES. Í viðauka reglugerðarinnar er að finna handbók með ítarlegum lýsingum á þeim aðferðum sem fylgja skal við gerð slíkra reikninga. Þessi lýsing eða staðall, ESA95, fellur í aðalatriðum að staðli Sameinuðu þjóðanna, SNA 1993. Staðall Evrópusambandsins var tekinn upp hérlendis á árinu 2000.

Reglugerð Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins nr. 1889/2002 um framkvæmd reglugerðar ráðsins (EB) nr. 448/98 um viðbætur og breytingar á reglugerð (EB) nr. 2223/96 að því er varðar skiptingu óbeint mældrar fjármálaþjónustu (FISIM) innan evrópska þjóðhagsreikningakerfisins (ESA95) var tekin upp hérlendis í mars 2006 og tölur fyrri ára endurmetnar aftur til ársins 1980.

Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar frá 17. desember til skýringar á viðauka A við reglugerð ráðsins (EB) nr. 2223/96 um evrópska þjóðhagsreikningakerfið (ESA95) að því er varðar meginreglur um mælingar á verði og magni er viðamikil en Hagstofan hefur hana að leiðarljósi og stefnir að því að taka megin efni hennar upp á næstu árum.

Birting og gagnasending fylgri reglugerð Evrópusambandsþingsins og -ráðsins um skil á þjóðhagsreikningagögnum, nr. 1392/2007 frá 13. nóvember 2007.
Sjá nánar: http://eur-lex.europa.eu/LexUriServ/LexUriServ.do?uri=OJ:L2007:324:0001:0078:EN:PDF

1. Efni


1.1 Efnislýsing

Fjármálum hins opinbera er ætlað af gefa góða yfirsýn yfir búskap hins opinbera, bæði varðandi tekjur og útgjöld og efnahagsleg áhrif. Lykilstærðir eru heildartekjur, heildarútgjöld, heildarskuldir, rekstrarjöfnuður og tekjujöfnuður, en sá síðarnefndi mælir þenslu- eða samdráttaráhrif opinberra fjármála. Tekjur og gjöld eru flokkuð eftir hagrænu eðli til að sýna hagræn áhrif þeirra í þjóðarbúskapnum. Þá eru útgjöld flokkuð eftir málaflokkum með það í huga að sýna þátt hins opinbera á mismunandi málasviðum þess.

Auk talna í fjárhæðum á verðlagi hvers árs hefur talnaefni verið sett fram með ýmsum hætti til að gefa gleggri vísbendingar um raunþróun bæði tekna og gjalda. Þannig hafa bæði verðvísitölur samneyslunnar og verðvísitala neysluverðs verið notaðar á útgjalda- og tekjuliði til að nálgast raunbreytingar. Sömuleiðis hefur hlutfall af landsframleiðslu verið reiknað til þess að fá mat á opinberum umsvifum í samhengi við umsvif í efnahagslífinu í heild.
Þótt flestar upplýsingar sem safnað er við uppgjör hins opinbera séu byggðar á bókhaldi á rekstrargrunni, þá eru nokkrar hagstærðir sem þarfnast mats. Við slíkt mat er leitast við að fara eftir uppgjörsaðferðum sem þróaðar hafa verið á alþjóðavettvangi. Þannig hefur t.d. verið nauðsynlegt að leggja mat á eðlilegar afskriftir skattkrafna og sömuleiðis á áfallnar lífeyrisskuldbindingar bæði ríkissjóðs og sveitarfélaga. Í flestum tilfellum styðjast slíkar uppgjörsreglur við alþjóðastaðla eins og GFSM 2001 og ESA95.

1.2 Tölfræðileg hugtök

Þau hugtök sem notuð eru við uppgjör hins opinbera falla fyrst og fremst að hinni svokölluðu GFS framsetningu opinberra fjármála, sem byggir á ofannefndum staðli Alþjóðagjaldeyrissjóðsins GFSM 2001. Sá staðall grundvallast á þjóðhagsreikningakerfi Sameinuðu þjóðanna frá 1993 (SNA 1993) og hinu evrópska þjóðhagsreikningakerfi (ESA 1995). Í GFS framsetningunni er áherslan fyrst og fremst á tekju- og útgjaldareikninga hins opinbera sem um margt líkjast bókhaldsframsetningu fyrirtækja. Einnig er áhersla á fjárfestingareikninga (e. accumulation account). Helstu einkennum þessara reikninga má lýsa með eftirfarandi hætti:

Tekjureikningur:
Tekjum hins opinbera er skipt niður í fjóra megintekjustofna, þ.e. skatttekjur, tryggingagjöld, fjárframlög og aðrar tekjur. Á eftirfarandi veffangi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er að finna ítarlegri skýringar á hinum mismunandi tekjustofnum http://www.imf.org/external/pubs/ft/gfs/manual/pdf/ch5.pdf.

  • Skatttekjur: Skatttekjur eru skilgreindar sem þær tekjur hins opinbera sem lagðar eru á með þvingun og án þess að greiðandinn fái eitthvað beint í staðinn. Skatttekjur eru flokkaðar frekar niður í sex meginundirflokka, þ.e. tekjuskatta, launaskatta, eignaskatta, skatta á vöru og þjónustu, skatta á utanríkisviðskipti og aðrir skattar.
  • Tryggingagjöld: Tryggingagjöld eru lögð á með þvingun eins og skattar en gefa greiðandanum hins vegar rétt á bótagreiðslum eða tiltekinni þjónustu þegar ákveðnar aðstæður koma upp. Við mælingu á skattbyrði teljast tryggingagjöld með.
  • Fjárframlög: Fjárframlög ná til tekju- og fjármagnstilfærslna sem hið opinbera og undirgeirar þess fá hver frá öðrum, erlendum stjórnvöldum og alþjóðastofnunum. Móttakandinn lætur ekkert beint af hendi í staðinn.
  • Aðrar tekjur: Aðrar tekjur flokkast í fimm undirflokka, þ.e. eignatekjur, sölu á vöru og þjónustu, sektir og skaðabætur, frjáls fjárframlög og aðrar tekjur ótaldar annars staðar.

Gjaldareikningur:
Gjöld hins opinbera skiptast niður á átta meginflokka eftir hagrænu eðli, en kaup og sala á efnislegum eignum flokkast undir fjárfestingareikning. Gjaldaflokkarnir eru laun og launatengd gjöld, kaup á vöru og þjónustu, afskriftir, vaxtagjöld, framleiðslustyrkir, fjárframlög, félagslegar tilfærslur til heimila og önnur útgjöld ót.a.s. Hver flokkur hefur sín sérstöku hagrænu áhrif. Frekari skýringar á gjaldaflokkum er að finna á eftirfarandi veffangi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins: http://www.imf.org/external/pubs/ft/gfs/manual/pdf/ch6.pdf

  • Laun og launatengd gjöld: Með launum og tengdum gjöldum er átt við greiðslur í peningum eða fríðu frá hinu opinbera sem atvinnurekandi greiðir launþega fyrir vinnuframlag. Hér á einnig að telja með greiðslur atvinnurekandans til lífeyristrygginga vegna starfsmanna hvort sem um er að ræða formlega sjóði eða reiknaðar skuldbindingar atvinnurekandans.
  • Kaup á vöru og þjónustu: Kaup hins opinbera á vöru og þjónustu til eigin framleiðslu eða til úthlutunar til annarra geira.
  • Afskriftir: Með afskriftum er fært til gjalda slit og úrelding eignfærðra fjármuna vegna notkunar þeirra í framleiðslunni og rýrnun þeirra vegna tækniframfara.. Afskriftir koma til tekna (frádráttar) í fjárfestingareikningi (sjá neðar).
  • Framleiðslustyrkir eru óafturkræft rekstrarframlag hins opinbera til framleiðslu- og fjármálafyrirtækja án þess það fái nokkuð beint í staðinn.
  • Fjárframlög eru tekju- og fjármagnstilfærslur sem hið opinbera og undirgeirar þess greiða hvorir öðrum, erlendum stjórnvöldum og alþjóðastofnunum. Um er að ræða framlög þar sem ekkert beint kemur í staðinn.
  • Félagslegar tilfærslur til heimila: Hér er um að ræða félagslegar tekjutilfærslur til heimilanna, en eðli þeirra er af þrennum toga, þ.e. bótagreiðslur almannatrygginga, félagsleg aðstoð (ekki tryggingatengd) og bætur atvinnurekendatrygginga.
  • Önnur útgjöld: Þau útgjöld sem ekki falla undir ofangreinda flokkar falla hér undir. Þar á meðal eru tekjutilfærslur af öðrum toga en félagslegum og sömuleiðis fjármagnstilfærslur aðrar en fjárframlög. Einnig falla hér undir sektir, skaðabætur og skattgreiðslur svo dæmi séu nefnd.

Fjárfestingarreikningur efnislegra fjármuna:
Undir þennan reikning fellur fjárfesting hins opinbera í efnislegum fjármunum, en hún greinist niður á fjóra undirflokka, þ.e. fastafjármuni, vörubirgðir, gersemi og náttúruauðlindir. Enn sem komið er eru einungis skráðar upplýsingar um fastafjármuni. Á móti fjárfestingu kemur sala á fastafjármunum og afskriftir, sjá veffangið: http://www.imf.org/external/pubs/ft/gfs/manual/pdf/ch8.pdf

Fjárfestingarreikningur peningalegra eigna og skulda:
Þessi reikningur nær til annars vegar peningalegra eigna og hins vegar skulda hins opinbera. Þá koma fram upplýsingar um bæði hreyfingar og stöðustærðir og sömuleiðis mismunandi tegundir eigna og skulda, en þær flokkast niður á sjö undirflokka. http://www.imf.org/external/pubs/ft/gfs/manual/pdf/ch9.pdf

Málaflokkasundurliðun útgjalda:
Útgjöld (gjöld og fjárfesting í efnislegum eignum) hins opinbera eru flokkuð niður í 10 meginmálaflokka samkvæmt COFOG skilgreiningunni, sem greinist síðan niður á fleiri undirflokka. Megináherslan er á brúttó útgjöld þar meðtalin fjárfesting í efnislegum eignum, en án frádráttar sértekna og fenginna fjármagnstilfærslna. http://unstats.un.org/unsd/cr/registry/regcst.asp?Cl=4

Helstu jöfnuðir:
Ýmsir mælikvarðar eru notaðir til að mæla afkomu hins opinbera. Algengastir eru rekstrarjöfnuður, hreinn sparnaður og tekjujöfnuður. Rekstrarjöfnuður (e. operating balance) mælir mismun rekstrartekna og rekstrargjalda að meðtöldum nettó fjármagnstilfærslum og gefur til kynna hversu mikið hið opinbera hefur afgangs úr rekstri til að auka efnislegar og peningalegar eignir. Séu nettó fjármagnstilfærslur dregnar frá rekstrarjöfnuði fæst hreinn sparnaður. Tekjujöfnuður (e. net lending / net borrowing) mælir mismun heildartekna og heildarútgjalda (rekstrargjöld að meðtaldri nettó fjármagnstilfærslum og fjárfestingu í efnislegum eignum). Þessi jöfnuður gefur til kynna hvort hið opinbera leggur öðrum aðilum hagkerfisins til fjármagn nettó eða tekur til sín fjármagn, eða m.ö.o. þenslu- og samdráttaráhrif hins opinbera.

2. Tími


2.1 Viðmiðunartími talnaefnis

Árstölur vísa til almanaksárs og ársfjórðungslegar tölur vísa til viðkomandi ársfjórðungs. Í báðum tilvikum er þeim, eftir því sem kostur er, ætlað að lýsa verðmætastraumum á rekstrargrunni, ekki greiðslugrunni.

2.2 Vinnslutími

Fyrstu tölur um liðið ár eru birtar um miðjan mars árið eftir, þ.e. í þriðja mánuði eða um 75 dögum eftir að árinu lýkur. Þær tölur eru nefndar bráðabirgðatölur. Næstu tölur eru birtar í um miðjan september eða um 240 dögum eftir að árinu lýkur og eru það endanlegar tölur. Þær tölur geta engu að síður tekið breytingum eftir því sem tilefni gefst.

Ársfjórðungstölur eru birtir 75 dögum eftir að ársfjórðungnum lýkur. Fyrri ársfjórðungar eru þá jafnframt endurskoðaðir. Ársfjórðungar taka einnig breytingum eftir því sem árstölur breytast.

2.3 Stundvísi birtingar

Niðurstöður eru birtar samkvæmt birtingaráætlun Hagstofunnar. Til þessa hafa ekki orðið tafir frá áður tilkynntum dagsetningum.

2.4 Tíðni birtinga

Sjá grein 2.2 hér að framan.

3. Áreiðanleiki og öryggismörk


3.1 Nákvæmni gagna og áreiðanleiki

Í byrjun árs 2007 voru fjármál hins opinbera birt í samræmi við GFSM 2001 staðal Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem byggir í meginatriðum á þjóðhagsreikningakerfi Sameinuðu þjóðanna, SNA 93 (ESA 95), en leggur áherslu á tekju- og útgjaldareikninga í samræmi við hefðbundið bókhaldsuppgjör opinberra fjármála. Af þessu tilefni voru fjármál hins opinbera og undirgeira þess endurskoðuð aftur til ársins 1998 með hliðsjón af hinum nýja staðli. Var bæði innleidd ný tekjuflokkun og sömuleiðis hagræn gjaldaflokkun. Þá var innleidd ítarleg flokkun á útgjöldum hins opinbera í samræmi við COFOG flokkunina frá 2000.

Við endurskoðun aftur til ársins 1998 gafst tækifæri á að fara ítarlegar yfir einstaka útgjaldaliði (fjárlagaliði) og niðurbrot þeirra en fyrri uppgjörsvenja gaf tilefni til. Átti þetta sérstaklega við hagræna flokkun ríkisútgjalda og sömuleiðis vissa þætti í uppgjöri sveitarfélaganna. Með aukinni rafrænni vinnslu gagna var einnig tryggt betra samræmi milli ára en áður var.

3.2 Skekkjuvaldar í gögnum

Nokkur ónákvæmni í gögnum setur visst mark á tölur um fjármál hins opinbera. Má þar í fyrsta lagi nefna rekstrargrunnsfærslur opinberra fjármála, en í þjóðhagsreikningum er ætlast til að uppgjör hins opinbera sé á rekstrargrunni. Líklega er nokkur brestur á að bókhald opinberra aðila sé á hreinum rekstrargrunni, þó hann sé það að stærstum hluta. Þá er nokkur ónákvæmni varðandi tekjufærslur ýmissa skatta, en reynt er að færa einungis til tekna þær skatttekjur sem líklega innheimtast yfir lengri tíma. Hér þarf því að beita áætlunum (stuðlum). Sömuleiðis myndast nokkur óvissa varðandi gjaldfærslu lífeyrisskuldbindinga, en ætlast er til að öll sú lífeyrisskuldbinding sem verður til vegna launavinnu ársins sé að fullu gjaldfærð á viðkomandi ári. Við þessa gjaldfærslu er stuðst við tryggingafræðilega útreikninga. Við upplýsingaöflun varðandi sveitarfélögin gætir nokkurrar ónákvæmni varðandi fjárfestingu þeirra og þarf því að byggja á þó nokkuð stóru úrtaki sem uppfært er til heildar hvað fjárfestingu varðar. Sömuleiðis er nokkur óvissa varðandi ýmsa tilfærsluliði sveitarfélaganna (framleiðslustyrki, tekjutilfærslur og fjármagnstilfærslur) sem ekki er hægt að draga fram beint úr uppgjöri þeirra en þarf að áætla að hluta út frá bókhaldsgögnum.

3.3 Tölur um öryggismörk/skekkjumælingar

Engar sérstakar rannsóknir hafa verið gerðar á skekkju eða öryggismörkum í íslenskum reikningum um opinber fjármál.

4. Samanburður


4.1 Samanburðarhæfi milli tímabila

Ein af grunnhugmyndunum með uppgjöri hins opinbera er að fylgt skal samræmdum aðferðum frá ári til árs í því skyni að tímaraðir verði eins sambærilegar og kostur er. Með tilkomu nýrra og betri gagna eða aðferða eitthvert ár getur sambærileikinn þó raskast og er þá leitast við að leysa þann vanda með því að reikna breytingaárið samkvæmt bæði gömlu og nýju aðferðinni og nota breytingaárið sem tengiár, keðjutenging.

4.2 Samanburður við aðrar hagtölur

Á undanförnum árum hefur átt sér stað mikil samræmingarvinna milli stofnana sem koma að gerð og vinnslu hagtalna fyrir hið opinbera og einstaka undirgeira þess. Sú vinna hefur skilað sér meðal annars í betri samræmdri flokkun tekna og útgjalda. Samanburðurinn við hagtölur annarra stofnana er því með ágætum að teknu tilliti til mismunandi aðferðafræði sem beitt er.
Samanburður við erlendar hagtölur er afar algengur og ætti að vera mjög marktækur fyrir þau lönd sem fylgja sama staðli við uppgjör á fjármálum hins opinbera.


4.3 Samband milli bráðabirgðatalna og lokatalna

Bráðabirgðatölur fyrir hið opinbera birtast innan þriggja mánaða frá því að viðkomandi tímabili líkur. Varðandi ríkissjóð og almannatryggingar þá liggur fyrir greiðsluuppgjör sem byggt er á við mat á bráðabirgðauppgjöri þeirra. Varðandi sveitarfélögin þá er byggt á úrtaki stærstu sveitarfélaganna við gerð bráðabirgðauppgjörs þeirra.
Árlegar lokatölur birtast í níunda mánuði frá því að viðkomandi tímabili líkur og er þá byggt á reikningum viðkomandi undirgeira hins opinbera. Nokkuð gott samræmi er á milli bráðabirgðatalna og lokatalna enda eru bráðabirgðatölur byggðar á stóru úrtaki úr reikningum sveitarfélaga og á heildartölum fyrir ríkið í flestum tilvikum

5. Aðgangur að upplýsingum


5.1 Miðlunarleiðir

Fréttir, birtar á vef Hagstofunnar
Hagtölur, efnisflokkaðar veftöflur
Hagtíðindi, ritröð
Landshagir, árbók Hagstofu Íslands
Gagnabankar IMF, OECD og Eurostat sem eru aðgengilegir á heimasíðum þessara stofnana.
Árbók IMF um opinber fjármál, árbók OECD um þjóðhagsreikninga: OECD: National Accounts of OECD countries, Volume I og II
Norræna tölfræðiárbókin: Nordic Statistical Yearbook

5.2 Grunngögn; varðveisla og notkunarmöguleikar

Grunngögn eru varðveitt á Hagstofunni. Afstaða er tekin til þess hverju sinni hvort utanaðkomandi aðilar fái aðgang að ítarlegri sundurliðun gagna en birt eru. Í því sambandi er verndun trúnaðarupplýsinga höfð í fyrirrúmi og fylgt verklagsreglum Hagstofu Íslands um meðferð trúnaðargagna sem eru aðgengilegar á heimasíðu Hagstofunnar.

5.3 Skýrslur

Helstu skýrslur um aðferðafræði fjármála hins opinbera og þjóðhagsreikninga á Íslandi eru:
  • Búskapur hins opinbera (nokkur hefti), Þjóðhagsstofnun, Reykjavík.
  • Gross National Income Inventory (ESA95) Iceland; Statistics Iceland, March 2004; birt á heimasíðu Hagstofunnar. Hér er um að ræða ítarlega lýsingu á aðferðum við gerð þjóðhagsreikninga á verðlagi hvers árs. Skýrslan er tekin saman að kröfu Eurostat sem hefur ákveðið kaflaskiptingu og umfjöllunarefni innan hvers kafla. Sambærilegar lýsingar eru til fyrir öll löndin á Evrópska efnahagssvæðinu.
  • Þjóðhagsreikningar 1945-1992; Þjóðhagsstofnun, Reykjavík Ágúst 1994
  • Lýsing á aðferðum við útreikning á magnbreytingum (keðjutengingu), Hagtíðindi: Landsframleiðslan - bráðabirgðatölur 2004, endurskoðun 1990-2003, 13. september 2005.
  • Lýsing á aðferðum við mat á reiknaðri bankaþjónustu, Hagtíðindi: Landsframleiðslan 2005 - áætlun, 14. mars 2006.

5.4 Aðrar upplýsingar

Nánari upplýsingar um einstaka þætti í reikningum hins opinbera veita einstakir starfsmenn Hagstofunnar í deild þjóðhagsreikninga og opinberra fjármála, sjá Netfangaskrá.

© Hagstofa �slands, �ann 18-6-2013