Hagstofan leggur ríka áherslu á trúnað, gætir þess að friðhelgi gagnaveitenda sé virt, fer með upplýsingar sem þeir veita sem trúnaðarmál og notar þær eingöngu til hagskýrslugerðar.

  • Engir óviðkomandi fá aðgang að Hagstofunni né tölvukerfum hennar og leitast stofnunin við að beita bestu aðferðum, á hverjum tíma, til að tryggja það. Starfsmenn Hagstofunnar hafa ekki aðgang að öðrum gögnum en þeim sem þeir þurfa vegna vinnu sinnar hverju sinni.
  • Hagstofan safnar einungis þeim gögnum sem hún þarf á að halda og gætir fyllsta öryggis við gagnasöfnun.
  • Öll gögn sem Hagstofnan safnar um tilgreinda einstaklinga eða lögaðila eru trúnaðarupplýsingar og einungis nýtt til hagskýrslugerðar.
  • Hagstofan dylur auðkenni eins fljótt og hægt er í úrvinnslu og geymir gögn ekki lengur en nauðsynlegt er.
  • Starfsmenn meðhöndla gögn af virðingu og sýna fyllstu aðgætni í umgengni þeirra. Starfsmenn eru meðvitaðir um trúnað og sækja reglulega fræðslu um öryggismál og meðferð trúnaðargagna.
  • Hagstofan gætir þess, sem frekast er unnt, að ekki sé hægt að rekja upplýsingar til einstaklinga eða lögaðila við miðlun.
  • Hagstofna veitir rannsóknaraðilum aðgang að gögnum til vísindarannsókna að ströngum skilyrðum uppfylltum.
  • Hagstofan gerir skriflegt samkomulag um trúnaðar- og þagnarskyldu við alla þá sem hafa aðgang að trúnaðarupplýsingum hjá Hagstofunni. Samkomulagið tekur á kröfum um verndun trúnaðarupplýsinga þannig að unnt sé að uppfylla skilyrði um meðferð fyrir dómstólum. Samkomulagið tekur til ytri aðila og starfsmanna. Ákvæði í samkomulaginu endurspeglar eðli og hlutverk aðila og heimilda þeirra til aðgangs að trúnaðarupplýsingum og meðhöndlun þeirra.
  • Samkomulag um trúnaðar- og þagnarskyldu skal hlíta viðeigandi lögum og reglugerðum.

Brot á reglum þessum og öll önnur atvik sem lúta að upplýsingaöryggi skal tilkynna til öryggisstjóra Hagstofu Íslands.Samþykkt af hagstofustjóra 1. febrúar 2023.