FRÉTT SJÁVARÚTVEGUR 16. MARS 2004

Heildarafli íslenskra skipa¹ í nýliðnum febrúarmánuði var tæplega 266.500 tonn sem er um 23 þúsund tonnum minni afli en í febrúarmánuði 2003 en þá veiddust 289.600 tonn. Milli febrúarmánaða 2003 og 2004 jókst verðmæti fiskaflans, á föstu verði ársins 2002, um 11,8% en það sem af er árinu 2004 dróst það saman um 0,9% miðað við árið 2003.
     Botnfiskafli var 42.400 tonn samanborið við 34.000 tonn í febrúarmánuði 2003 og jókst því um 8.400 tonn á milli ára. Þorskafli var 23.000 tonn en 18.800 tonn bárust á land í febrúarmánuði 2003 og er það aukning um rúm 4.200 tonn. Af ýsu veiddust tæplega 8.500 tonn og er það 3.300 tonna aukning frá fyrra ári. Ufsaafli var 3.600 tonn og er það nærri 300 tonnum meira en á árinu 2003. Karfaafli var 4.200 tonn sem er áþekkt magn og í fyrra
     Flatfiskafli var 2.350 tonn og jókst um tæplega 450 tonn frá febrúarmánuði 2003. Mestur varð grálúðuaflinn eða 1.300 tonn en um 350 tonn veiddust af skarkola og rúmlega 300 tonn af skrápflúru.
    Af loðnu veiddust 220 þúsund tonn en í febrúarmánuði 2003 var loðnuaflinn alls 249 þúsund tonn og nemur samdrátturinn 29 þúsund tonnum. Enginn síldarafli barst á land í mánuðinum en í febrúarmánuði 2003 veiddist rúmt eitt þúsund tonn.
Skel- og krabbadýraafli var rúmlega 1.600 tonn samanborið við tæplega 3.500 tonna afla í febrúar 2003. Rækjuaflinn var 900 tonn og dróst saman um tæplega 1.400 tonn, af kúfiski veiddust  700 tonn og dróst kúfiskaflinn saman um 300 tonn.
     Heildarafli íslenskra skipa það sem af er árinu 2004 var 373 þúsund tonn og er það 172 þúsund tonnum minni afli en á árinu 2003. Botnfiskafli var tæp 73 þúsund tonn sem er um 11 þúsund tonnum meiri afli en á sama tímabili 2003. Þorskaflinn var 39 þúsund tonn og er það aukning um 4.200 tonn. Ýsuaflinn var nærri 14.400 tonn sem er aukning um 4.900 tonn og þá var steinbítsaflinn orðinn 2.350 tonn sem er 450 tonnum meiri afli en á sama tímabili árið 2003.
     Flatfiskaflinn var tæplega 3.700 tonn þar af voru 1.600 tonn af grálúðu, rúm 700 tonn af skarkola og 650 tonn af skrápflúru.
     Loðnuaflinn var orðinn 284 þúsund tonn sem er tæplega þriðjungs samdráttur í magni því loðnuaflinn eftir fyrstu tvo mánuði ársins 2003 var 468 þúsund tonn.
     Skel- og krabbadýraaflinn var tæplega 2.600 tonn samanborið við rúmlega 5.900 tonna afla árið 2003. Mestu munar um 1.800 tonna samdrátt í rækjuafla, tæplega 800 tonna samdrætti í hörpudiskafla vegna veiðibanns í Breiðafirði og þá dróst kúfiskaflinn saman um 750 tonn.

¹Upplýsingar um fiskafla sem birtast í þessari fréttatilkynningu eru bráðabirgðatölur. Þær byggjast á upplýsingum Fiskistofu sem berast frá löndunarhöfnum innanlands (Lóðs), útflytjendum afla og frá umboðsmönnum erlendis og er safnað af Fiskistofu.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.