FRÉTT MANNFJÖLDI 04. DESEMBER 2017

Hagstofa Íslands birtir nú talnaefni um dánarmein fyrir árin 2010–2015. Tölur um dánarmein byggjast á dánarvottorðum allra sem létust á tímabilinu og áttu lögheimili á Íslandi við andlát.

Á árunum 1996–2015 voru um 37% dauðsfalla vegna sjúkdóma í blóðrásarkerfi, 29% vegna æxla, 7% vegna sjúkdóma í taugakerfi og skynfærum, 9% vegna sjúkdóma í öndunarfærum og 6% vegna ytri orsaka. Aldursdreifing dánarorsaka sýnir að ytri orsakir eru algengastar fram að 35 ára aldri, æxli hjá 35–79 ára og sjúkdómar í blóðrásarkerfi hjá einstaklingum 80 ára og eldri. Almennt hafa þó ekki orðið teljandi breytingar á
dánartíðni eftir helstu flokkum dánarmeina á tímabilinu 1996–2015.

Hlutfallslega færri deyja úr blóðrásarsjúkdómum
Hlutfall þeirra sem deyja nú úr blóðrásarsjúkdómum (til dæmis blóðþurrð í hjarta, heilaæðasjúkdómum og bráðu hjartavöðvafleygdrepi) hefur lækkað, var 40% á árunum 1996–2005 en 34% á árunum 2006–2015.
Dauðsföll eru algengust í aldurshópnum 65 ára og eldri (nærri 80% allra dauðsfalla) og nær helmingur allra dauðsfalla er hjá 80 ára og eldri (um 47%). Þetta helst í hendur við þá staðreynd að sjúkdómar í taugakerfi og skynfærum (til dæmis Alzheimerssjúkdómur og Parkinsonveiki), sem eru líklegri til að hrjá eldra fólk, voru þriðji stærsti flokkur dánarmeina hér á landi árin 2006–2015, eða meira en 8% allra dauðsfalla.

Tíðni dánarmeina vegna æxla (til dæmis illkynja æxli í barka, berkju og lunga), sjúkdóma í öndunarfærum og ytri orsaka breyttist lítið milli tímabilanna 1996–2005 og 2006–2015. Árin 2006–2015 voru 29% dánarmeina vegna æxla, 8% vegna sjúkdóma í öndunarfærum og 6% vegna ytri orsaka veikinda og dauða sem er algengasta dánarorsök yngstu aldurshópanna.

Hlutfall ótímabærra dauðsfalla fór úr 9% á tímabilinu 1996–2005 í 7% árin 2006–2015. Ótímabær dauðsföll eru andlát sem hefði mátt komast hjá með viðeigandi meðferð eða forvörnum.

Dánarorsakir eftir kyni og aldri
Æxli er algengasta dánarmein hjá 35–79 ára, en fram til 34 ára aldurs eru ytri orsakir líklegasta dánarmeinið. Í elsta hópnum (80 ára og eldri) eru blóðsjúkdómar algengasta dánarorsökin. Tafla 1 sýnir tíðni mismunandi dánarorsaka eftir aldurshópum.

Tafla 1. Dánarorsakir eftir aldri 2006–2015

 

Skýringar: Rautt=sjúkdómar í blóðrásarkerfi, gulur=æxli, blár=sjúkdómar í öndunarfærum, grænt=sjúkdómar í taugakerfi og skynfærum, dökkgrár=ytri orsakir og ljósgrár=aðrar orsakir.

Dánartíðni karla og kvenna vegna sjúkdóma í blóðrásarkerfi er svipuð hjá 80 ára og eldri (um 43%), en dánartíðni karla er meira en tvöfalt hærri en kvenna í aldurshópnum 50–64 ára, 27% á móti 12%. Hins vegar eru æxli líklegri til að valda andláti kvenna en karla, sérstaklega í aldurshópnum 50–64 ára (60% á móti 43%) og í aldurshópnum 35–49 ára (54% á móti 40%). Dauðsföll karla vegna ytri orsaka (54%) eru tíðari en dauðsföll kvenna (23%) í aldurshópnum 35–49 ára.

Þróun dánarorsaka
Heildarfjöldi dauðsfalla og hlutfall einstakra dánarorsaka er breytilegt eftir aldurssamsetningu mannfjöldans. Hagstofa Íslands, eins og hagstofa Evrópusambandsins, Eurostat, notar aldursstaðlaða dánartíðni (aldursstaðlað á hverja 100.000 íbúa af staðalþýði: Eurostat-2013) til að auðvelda samanburð á dánartíðni yfir tíma og milli landa. Mynd 1 sýnir hvernig aldursstöðluð dánartíðni algengustu orsaka hefur þróast yfir tíma.



Skýring: Sjúkdómar í blóðrásarkerfi og æxli (hægri ás); sjúkdómar í taugakerfi og skynfærum, í öndunarfærum og ytri orsakir (vinstri ás).

Aldursstöðluð dánartíðni vegna sjúkdóma í blóðrásarkerfi og illkynja æxla hefur lækkað álíka mikið á undanförnum 20 árum. Um fjórðungur allra dánarmeina vegna æxla er vegna illkynja æxlis í barka, berkju og lunga. Aldursstöðluð dánartíðni vegna illkynja æxlis í barka, berkju og lunga hefur lækkað nokkuð hjá báðum kynjum sérstaklega milli áranna 2011–2015, heldur hraðar hjá körlum en konum. Þetta er talsvert önnur þróun en í öðrum ríkjum Evrópu þar sem illkynja æxli í lunga er þrisvar sinnum algengari dánarorsök hjá körlum en konum samanber nýleg gögn frá Eurostat í mynd 2.


Aldursstöðluð dánartíðni vegna sjúkdóma í taugakerfi og skynfærum hefur aukist á Íslandi líkt og í öðrum ríkjum Evrópu vegna öldrunar íbúa.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1030 , netfang mannfjoldi@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.