Árið 2018 bjuggu 4,5% landsmanna eða tæplega 16 þúsund einstaklingar á heimilum sem höfðu verið í vanskilum með húsnæðislán eða húsaleigu á síðustu tólf mánuðum. Hlutfallið hefur lækkað ár frá ári síðan 2013, þó að lækkunin á milli 2017 og 2018 sé innan skekkjumarka. Hlutfall heimila í leiguhúsnæði sem eru í vanskilum hefur aldrei verið lægra. Í upphafi mælinga, árið 2004, voru 12,2% heimila í leiguhúsnæði í vanskilum en árið 2018 voru þau 5,3%. Að jafnaði er hlutfallið lægra meðal heimila í eigin húsnæði, en árið 2018 var það 3,1%. Þetta kemur fram í niðurstöðum lífskjararannsóknar Hagstofu Íslands fyrir árin 2017 og 2018.

Vanskil húsnæðislána eða leigu

Hlutfall einstaklinga sem búa á heimilum í vanskilum húsnæðislána eða leigu og 95% öryggisbil.

Hlutfall vanskila hátt meðal karla með grunnmenntun
Flestir einstaklingar sem bjuggu á heimilum í vanskilum árið 2018 voru í lægsta tekjufimmtungi, eða rúmlega 10%. Hlutfall einstaklinga sem býr á heimilum í vanskilum minnkar með hækkandi tekjum. Vanskil eru algengari meðal yngri aldurshópa en eldri sem til dæmis má sjá á því að hlutfallslega eru færri 55 ára og eldri sem búa á heimilum í vanskilum miðað við þá sem yngri eru.

Tengsl eru á milli menntunar og vanskila. Vanskil eru lægst meðal háskólamenntaðra og hafa farið lækkandi. Árið 2017 var hlutfallið 4,4% en 2,6% árið 2018. Til samanburðar bjuggu 5,9% grunnskólamenntaðra á heimilum í vanskilum árið 2018, eða 3,3 prósentustigum hærra. Að jafnaði er meiri munur á hlutfalli í vanskilum eftir menntun meðal karla en kvenna. Hæst er hlutfall vanskila meðal karla með grunnmenntun, eða 8,4% árið 2018.

Byrði húsnæðiskostnaðar þyngst meðal tekjulágra og leigjenda
Helmingur Íslendinga varði allt að 17,7% af ráðstöfunartekjum heimilisins í húsnæðiskostnað árið 2018. Sama ár bjuggu 8,9% einstaklinga á heimilum með íþyngjandi byrði húsnæðiskostnaðar, eða um 31 þúsund einstaklingar á um 17 þúsund heimilum. Húsnæðiskostnaður telst íþyngjandi þegar heildarkostnaður húsnæðis nemur meira en 40% af ráðstöfunartekjum heimilisins. Byrði húsnæðiskostnaðar skiptist ekki jafnt, þar sem einn af hverjum fjórum í lægsta tekjufimmtungnum bjó við íþyngjandi húsnæðiskostnað árið 2018 á meðan hlutfallið var mun lægra í öðrum tekjufimmtungum. Þá er íþyngjandi húsnæðiskostnaður algengari meðal leigjenda en meðal fólks sem býr í eigin húsnæði, og hefur bilið milli þessara hópa breikkað ef miðað er við upphaf mælinga árið 2004. Árið 2018 voru 19,6% heimila á leigumarkaði með íþyngjandi húsnæðiskostnað en 7,9% heimila í einkaeigu. Í fjölbýlum með 10 eða fleiri íbúðum er hlutfall heimila með íþyngjandi húsnæðiskostnað hærra, eða um 14,6%, miðað við hlutfallið í einbýlum sem var 9,2% árið 2018.

Íþyngjandi húsnæðiskostnaður eftir stöðu á húsnæðismarkaði

Hlutfall heimila þar sem heildarkostnaður húsnæðis er meira en 40% af ráðstöfunartekjum heimilisins og 95% öryggisbil.

Mat á byrði húsnæðiskostnaðar hefur lækkað meira en reiknuð byrði
Mat fólks á byrði húsnæðiskostnaðar hefur lækkað meira á milli ára en útreikningar á byrði húsnæðiskostnaðar. Með öðrum orðum hefur huglægt mat á byrði húsnæðiskostnaðar breyst meira frá ári til árs heldur en húsnæðiskostnaður sem reiknaður er út frá þeim kostnaðarliðum sem falla þar undir. Þetta má meðal annars sjá í því að árið 2011 var byrði húsnæðiskostnaðar þung að mati 33,9% íbúa. Þetta er hæsta mæling á mati á byrði húsnæðiskostnaðar yfir tímabilið. Sama ár bjuggu 11,8% einstaklinga á heimilum með reiknaða íþyngjandi byrði húsnæðiskostnaðar . Árið 2018 mátu 14,3% einstaklinga byrði húsnæðiskostnaðar sem þunga á meðan 8,9% einstaklinga bjuggu á heimilum með íþyngjandi byrði húsnæðiskostnaðar.

Mat á byrði húsnæðiskostnaðar og reiknuð byrði

Með reiknaðri byrði er átt við hlutfall einstaklinga sem býr á heimilum þar sem heildarkostnaður húsnæðis er meira en 40% af ráðstöfunartekjum heimilisins. Með mat á byrði er átt við hlutfall einstaklinga sem metur sig búa við þunga byrði húsnæðiskostnaðar. Myndin sýnir 95% öryggisbil.

Um gögnin
Niðurstöðurnar eru unnar úr lífskjararannsókn Hagstofu Íslands. Samhliða birtingu á niðurstöðum um byrði húsnæðiskostnaðar fyrir árin 2017 og 2018 hafa eldri niðurstöður verið endurskoðaðar og leiðréttar. Leiðréttingin fólst í því að tekið var tillit til kostnaðar við rafmagn og hita í eldri niðurstöðum reiknaðrar byrði húsnæðiskostnaðar. Áhrifa endurskoðunar gætir fyrst og fremst hjá leigjendum. Tölur fyrir árið 2018 eru bráðabirgðatölur

Íþyngjandi húsnæðiskostnaður byggir á útreikningi á byrði húsnæðiskostnaðar. Húsnæðisbyrði er reiknuð sem hlutfall ráðstöfunartekna sem er varið í húsnæðiskostnað.

Eftirfarandi liðir teljast til húsnæðiskostnaðar: húsaleiga, vaxtakostnaður og verðbætur vegna lána, viðhald, viðgerðir, bruna-, og fasteignatrygging, rafmagn, hiti og fasteignagjöld. Húsaleigubætur og vaxtabætur eru dregnar frá húsnæðiskostnaði hjá þeim sem fá slíkar bætur greiddar.

Ráðstöfunartekjur heimilis á neyslueiningu eru heimilistekjur eftir að tillit hefur verið tekið til heimilisstærðar og þeirrar hagkvæmni í rekstri heimilis sem fæst við það að fleiri en einn búa undir sama þaki. Einnig er gert ráð fyrir því að útgjöld vegna barna séu lægri en útgjöld vegna fullorðinna.

Árið 2010 var sett inn ný spurning sem mælir mat á byrði húsnæðiskostnaðar í samræmi við reglugerðir Hagstofu Evrópusambandsins, Eurostat. Í nýju spurningunni eru taldir upp allir liðir húsnæðiskostnaðar en engin slík upptalning var í eldri spurningunni um húsnæðiskostnað. Vegna þessa nær tímalínan einungis aftur til 2010.

Lífskjararannsókn Hagstofunnar er langsniðsrannsókn þar sem haft er samband við hátt í 5 þúsund heimili árlega. Frekari upplýsingar um lífskjararannsóknina má lesa í lýsigögnum.

Talnaefni