FRÉTT KOSNINGAR 30. NÓVEMBER 2015

Hagstofa Íslands hefur gefið út Hagtíðindi þar sem greint er frá niðurstöðum kosninga til sveitarstjórna sem fram fóru 31. maí 2014 og náðu til 74 sveitarfélaga.

Í 56 sveitarfélögum með 99% kjósenda og 184 framboðslistum var bundin hlutfallskosning, þar af var sjálfkjörið í þremur sveitarfélögum þar sem aðeins einn listi var borinn fram. Kosning var óbundin í 18 sveitarfélögum þar sem rúmt 1% kjósenda var á kjörskrá.

Kosningaþátttaka í þessum kosningum var sú dræmasta í sveitarstjórnarkosningum til þessa eða 66,5%. Kosninga­þátttaka kvenna var meiri en karla og var breytileg eftir aldri, meiri meðal eldri en yngri kjósenda. Þátttaka kjósenda með erlent ríkisfang var 21%, tæp 57% meðal norrænna kjósenda en 17% meðal annarra erlendra ríkisborgara en alls höfðu 10.183 kjósendur með erlent ríkisfang og búsettir hér á landi kosningarrétt við sveitarstjórnarkosningarnar.

Gild atkvæði voru alls 152.234. Auðir seðlar voru 5.594 og aðrir ógildir 788 eða samanlagt 4,0% greiddra atkvæða.

Tala frambjóðenda í sveitarfélögum þar sem kosning var bundin var 2.916, 1.532 karlar (52,5%) og 1.384 konur (47,5%).  Voru kjörnir 410 fulltrúar í þessum sveitarfélögum en 94 Í sveitarfélögum þar sem kosning var óbundin. Alls voru því kjörnir 504 sveitar­stjórnar­menn á landinu öllu, 282 karlar eða 56,0% og 222 konur eða 44,0%. Hlutfall kvenna af kjörnum fulltrúum hefur aldrei verið hærra.  Í kosningunum var 58% kjörinna fulltrúa nýkjörnir en 42% fulltrúa höfðu einnig verið kjörnir í kosningunum 2010.

Sveitarstjórnarkosningar 31. maí 2014 - Hagtíðindi

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.