FRÉTT HEILBRIGÐISMÁL 21. JÚNÍ 2017

Áfengisneysla, byggð á áfengissölu hérlendis, var um 2.015 þúsund alkóhóllítrar árið 2016 samanborið við rúmlega 1.324 þúsund lítra árið 2000 og 716 þúsund lítra árið 1980. Mælt í hreinum vínanda á íbúa 15 ára og eldri var neyslan 7,50 lítrar árið 2016, 6,14 árið 2000 og 4,33 lítrar árið 1980. Áfengisneysla hefur því aukist um 73% milli áranna 1980 og 2016 sé horft til alkóhóllítra á íbúa 15 ára og eldri.

Áfengisneysla fór hægt vaxandi á árunum 1980–1988 en jókst umtalsvert árið1989 þegar sala bjórs var heimiluð hér á landi. Dró síðan úr henni en frá árinu 1994 fór hún stigvaxandi fram til ársins 2007 þegar hún varð hvað mest. Í kjölfarið minnkaði áfengisneysla aftur í nokkur ár en jókst á ný og var mest árið 2015, 7,66 alkóhóllítrar á íbúa 15 ára og eldri. Ætla má að fjölgun ferðamanna til landsins á síðustu árum eigi sinn þátt í þeirri aukningu sem orðið hefur á sölu áfengis undanfarið.

Mælt í hreinum vínanda á íbúa 15 ára og eldri var neysla bjórs 4,24 lítrar árið 2016, neysla léttra vína 2,09 lítrar og neysla sterkra drykkja 1,16 lítrar.

Bjór er vel yfir helmingur alls áfengis sem neytt er
Mikil breyting varð á áfengisneyslu í kjölfar þess að sala á bjór hófst. Árið 1988 var hlutur sterkra drykkja 77% og léttra vína 23% mælt í hreinum vínanda. Árið 1989 fór hlutur sterkra drykkja niður í 52% og hlutur léttra vína í 14% en sala bjórs varð 34% af heildarsölu áfengis í alkóhóllítrum talið þó einungis hafi verið um 10 mánaða sölu að ræða. Hlutur bjórs minnkaði lítillega næstu árin en jókst síðan jafnt og þétt og hefur verið um og yfir helmingur heildarsölu áfengis í alkóhóllítrum um langt skeið. Árið 2000 var bjór 49% seldra alkóhóllítra, létt vín 22% og sterk vín 29%. Síðustu árin hefur hlutur bjórs aukist enn frekar og var 57% áætlaðrar heildarsölu árið 2016. Á sama tíma hefur dregið verulega úr sölu sterkra drykkja og er hlutur þeirra nú tæplega 16%. Neysla léttra vína minnkaði einnig við tilkomu bjórsins en jókst síðan aftur og hafa létt vín verið 26–29% af áætlaðri heildarneyslu mælt í hreinum vínanda síðustu árin (28% árið 2016).


Samanburður við Norðurlönd
Dregið hefur úr áfengisneyslu í Danmörku, Færeyjum og á Grænlandi og einnig lítillega í Finnlandi frá árinu 2000 á sama tíma og hún hefur aukist á Álandseyjum, í Noregi, Svíþjóð og á Íslandi samanber mynd 3 sem sýnir fjölda alkóhóllítra á íbúa 15 ára og eldri árin 2000 og 2016. Mestur er samdrátturinn á Grænlandi en aukningin mest á Íslandi á þessu tímabili.


2016: Danmörk, Færeyjar og Álandseyjar 2015, Svíþjóð 2014.


Gagnaöflun og aðferðafræði
Eftir nokkurt hlé gefur Hagstofan út talnaefni um áfengisneyslu að undangengnum breytingum á gagnaöflun og aðferðum við skýrslugerð. Tölur um áfengisneyslu eru nú reiknaðar sem magn seldra alkóhóllítra á grundvelli upplýsinga frá fjármálaráðuneytinu um álagningu áfengisgjalds af innflutningi og innlendri framleiðslu áfengis ár hvert og einnig á sölutölum ÁTVR. Birtar eru tölur um heildarneyslu áfengis fyrir árin 2008–2016 skipt í bjór, létt vín og sterk vín.

Ýmsar breytingar hafa orðið á skýrslugerðinni í gegnum tíðina en tölurnar byggja á áfengissölu. Talnaefni fyrir árin 1995–2007 er byggt á sölu ÁTVR og skýrslum sem aðrir leyfishafar sendu Hagstofunni um sölu þeirra til veitingahúsa, hótela, sendiráða og það sem notað var til kynningar innanlands. Eftir það varð hlé á birtingu talna af hálfu Hagstofu um áfengisneyslu þar til nú.

Ekki er meðtalið áfengi sem áhafnir skipa og flugvéla flytja inn í landið, eða það magn sem ferðamenn taka með sér frá útlöndum eða kaupa í fríhöfn. Ekki er heldur meðtalið það magn sem ÁTVR eða aðrir aðilar flytja úr landi eða selja til Fríhafnarinnar á Keflavíkurflugvelli.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1054 , netfang Sigridur.Vilhjalmsdottir@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.