Frétt

þriðjudagur 13. júlí 2010
Nr. 141/2010

Spá um mannfjölda 2010-2060

Út er komin spá Hagstofu Íslands um mannfjölda 2010–2060 í ritröðinni Hagtíðindi. Sú nýjung er tekin upp í mannfjöldaspánni að þessu sinni að gerð eru þrjú afbrigði af henni, svokölluð lágspá, miðspá og háspá. Afbrigðin miðast við ólíkar forsendur um fjölda barna á ævi hverrar konu og búferlaflutninga.

Í miðspá mannfjöldaspárinnar er gert ráð fyrir að mannfjöldi á Íslandi verði 436.500 hinn 1. janúar 2060. Til samanburðar er mannfjöldi nú 317.600. Í lágspánni verða íbúar 386.500 í lok spátímabilsins en 493.800 samkvæmt háspánni.

Gert er ráð fyrir áframhaldandi fólksfækkun á yfirstandandi ári, en frá og með árinu 2011 mun fólki fjölga á landinu þrátt fyrir neikvæðan flutningsjöfnuð á því ári og hinu næsta.

Í miðspá og háspá er gert ráð fyrir náttúrlegri fólksfjölgun út spátímabilið. Með náttúrlegri fólksfjölgun er átt við fleiri fædda en dána. Samkvæmt lágspánni verða dánir hins vegar fleiri en fæddir frá og með árinu 2052. Þá yrði fjölgun íbúa eingöngu rakin til jákvæðs flutningsjafnaðar.

Meðalævi mun halda áfram að lengjast bæði hjá körlum og konum. Karlar geta vænst þess að verða 79,7 ára nú en meðalævilengd þeirra verður 85 ár í lok spátímabilsins. Konur geta vænst þess að verða 83,3 ára en spáð er að sá aldur verði kominn í 87,1 ár í lok spátímabilsins.

Spá um mannfjölda 2010-2060 - Hagtíðindi

TalnaefniÖllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100, netfang upplysingar[hja]hagstofa.is

 

Leita Leit

Byggir á LiSA CMS. Eskill -LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi