Vöruskipti við útlönd


0. Skráningaratriði fyrir viðfangsefni


0.1 Heiti

Vöruskipti við útlönd

0.2 Efnisflokkur

Utanríkisverslun

0.3 Umsjón; stofnun, deild, sérfræðingur o.s.frv.

Hagstofa Íslands
Utanríkisverslunardeild
Auður Ólína Svavarsdóttir, deildarstjóri
Sími 528 1151
Póstfang audur.svavarsdottir@hagstofa.is

0.4 Tilgangur og aðdragandi

Vöruskipti halda utan um nákvæmar upplýsingar um vöruinnflutning til Íslands og vöruútflutning frá Íslandi. Elstu tölur um utanríkisverslun vöru sem ná til landsins alls eru frá 1624 en tölur um utanríkisverslun vöru hafa verið gefnar reglubundið út síðan 1862.
Einnig hefur Hagstofa birt, frá 2014, brúartöflu sem sýnir mismun á vöruskiptum og þeim niðurstöðum af vöruviðskiptum eins og þær birtast í greiðslujöfnuði og þjóðhagsreikningum.

0.5 Notendur og notkunarsvið

Notendur eru opinberir aðilar, alþjóðastofnanir, fyrirtæki, sendiráð, fjölmiðlar og almenningur sem nota gögnin í margvíslegum tilgangi, t.a.m. til efnahagsrannsókna og markaðsrannsókna.
Mismunur vöruútflutnings og vöruinnflutnings gefa vöruskiptin við útlönd sem er haldgóð vísbending um ástand þjóðfélagsins. Tölur um utanríkisverslun vöru eru notaðar til útreiknings viðskiptajafnaðar, greiðslujafnaðar við útlönd og þjóðhagsreikninga auk þess að veita upplýsingar um innlenda og erlenda eftirspurn.

0.6 Heimildir

Upplýsingar um utanríkisverslun vöru byggjast að mestu leyti á aðflutningsskýrslum innflytjenda og útflutningsskýrslum útflytjenda sem Hagstofa fær frá Tollstjóra. Þessar upplýsingar eru yfirfarnar og leiðréttar eins og kostur er. Oft er haft samband við viðkomandi innflytjendur og útflytjendur til nánari útskýringa eða til leiðréttingar.
Víðar er leitað upplýsinga um utanríkisverslun vöru en af tollskýrslum. Má þar nefna að Siglingastofnun Íslands (Skipaskrá) og Flugmálastjórn, Loftferðaeftirlit, gefa upplýsingar um kaup og sölu á flugvélum og skipum og er haft samband við hlutaðeigandi kaupendur og seljendur til nánari upplýsinga. Hagstofan sendir einnig út mánaðarlega könnun til að afla upplýsinga um kaup og sölur á skipum og flugvélum sem koma ekki til landsins. Siglingastofnun gefur upplýsingar um hvaða skip fara utan til breytinga.

0.7 Lagalegur grundvöllur fyrir hagskýrslugerð

Lög um Hagstofu Íslands og opinbera hagskýrslugerð, nr. 163/2007, lög um skráningu og meðferð persónuupplýsinga, nr. 77/2000. Samþykktir Sameinuðu þjóðanna um grundvallarreglur um opinbera hagskýrslugerð.

0.8 Svarbyrði við innsöfnun

Hverjum innflytjanda og útflytjanda er skylt að skila inn tollskýrslu fyrir innflutning og útflutning á vöru. Að auki leitar Hagstofan upplýsinga hjá fyrirtækjum. Svarbyrði þeirrar upplýsingaleitar er lítil þar sem í flestum tilfellum er leitað nánari útskýringa á upplýsingum sem áður hafa verið gefnar.

0.9 Ákvæði vegna EES og ESB

Reglugerðir 471/2009, 92/2010 og 113/2010 með breytingum og viðaukum.

1. Efni


1.1 Efnislýsing

Hagstofan fylgir að mestu leiðbeiningum Sameinuðu þjóðanna um skilgreiningu og meðferð talnaefnis um utanríkisverslun vöru, þ.e. hvað er tekið með, hvernig og hvenær (United Nations: International Trade Statistics, Concepts and Definitions).
Um er að ræða vöruviðskipti og er almenna skilgreiningin sú að allur innflutningur og útflutningur sem skerðir efnislegar auðlindir lands á að teljast með í utanríkisverslunartölum.
Venja er að greina á milli tvenns konar grundvallarreglna um skýrslur varðandi utanríkisverslun vöru, almennra verslunarreglna (general trade system) og sértækra verslunarreglna (special trade system). Munur á þessum reglum felst aðallega í skráningu á vöru sem flutt er í tollvörugeymslu og á frísvæði. Samkvæmt almennu verslunarreglunum er vara skráð sem innflutt þegar hún kemur inn í tollvörugeymslu/frísvæði en samkvæmt sértæku verslunarreglunum er varan skráð þegar hún fer úr tollvörugeymslu/frísvæði inn í landið. Hérlendis er fylgt sértæku verslunarreglunum frá miðju ári 1998.

Utanríkisverslun vöru sýnir sundurliðaðar upplýsingar um vöruinnflutning til Íslands og vöruútflutning frá Íslandi eftir löndum (upprunaland í innflutningi og neysluland í útflutningi), skipt niður á ýmsar flokkanir.
Grunnflokkunin og sú sem er mest sundurgreind er tollskrárnúmeraflokkun. Núgildandi tollskrá tók gildi hinn 1. janúar 1988 og eru u.þ.b. 8.000 tollskrárnúmer í henni.
Birtar eru upplýsingar um magn og fob verðmæti útfluttrar vöru og magn, fob-, og cifverðmæti innfluttrar vöru og er útflutt og innflutt vara reiknuð á daglegu miðgengi viðkomandi gjaldmiðils. Fyrir ákveðnar vörur er birtur einingarfjöldi (rúmmetrar, stykki, pör og lítrar).
Viðmiðunargengi er svokallað tollgengi sem er hið opinbera gengi skráð af Seðlabanka Íslands síðasta virka dag á undan tollafgreiðsludegi. Varðandi útflutning gildir einnig sú regla að ekki skal nota nýrra gengi en í gildi er á brottfarardegi flutningsfars ef tollskýrsla er gerð og tollafgreidd eftir brottfarardag.
Einnig eru birtar upplýsingar um utanríkisverslun vöru eftir öðrum flokkunum, helstar eru SITC (Standard International Trade Classification, Sameinuðu þjóðirnar), vörutegundflokkun og vinnslugreinaflokkun (séríslenskar flokkanir) og BEC (Broad Economic Categories, hagræn flokkun, Sameinuðu þjóðirnar) sem og upplýsingar um utanríkisverslun vöru eftir löndum, heimsálfum og markaðssvæðum.
Gögn eru ekki árstíðaleiðrétt.

1.2 Tölfræðileg hugtök

Í skránum sem tekið er á móti frá tollembættum er hver færsla af aðflutningsskýrslum innflytjenda og útflutningsskýrslum útflytjenda með eftirfarandi dálka:
Eink: X (útflutningur) eða M (innflutningur).
Tlsk: 8 stafa tollskrárnúmer.
Land: Upprunaland í innflutningi og neysluland í útflutningi, tveggja stafa kódi skv. ISO-3166.
Eifj: Fyrir ákveðnar vörur, s.s. rúmmetrar í timbri, stykki fyrir ýmsan fatnað, bíla, skip, flugvélar o.fl., pör fyrir skófatnað og lítra fyrir áfengi.
Magn: Nettóþyngd í kílóum (þ.e. þyngd án umbúða).
Verð: Fob verð í íslenskum krónum fyrir útflutning og fob og cif verð í íslenskum krónum fyrir innflutning. Með fob verði (free on board) er átt við verð vörunnar komið um borð í flutningsfar í útflutningslandi. Í cif verði (cost, insurance, freight) er einnig talinn sá kostnaður sem fellur á vöruna þar til henni er skipað upp í innflutningslandi.

Auk þessara dálka eru dálkar sem þjóna yfirferð eða nánari skilgreiningum á gögnunum til innanhússnota (s.s. dagsetningar, kennitölur, tollaundanþágukódar o.fl.).

Tlsk (tollskrárnúmer) tengir gögnin við aðrar flokkanir s.s. SITC, vörutegundaflokkun og BEC.

Upplýsingarnar eru birtar í dýpstu sundurliðun miðað við samtölu áðurnefndra dálka en einnig samandregið á ýmsar flokkanir.

Vöruskipti/vöruskiptajöfnuður: Útflutningur vöru fob að frádregnum innflutningi vöru fob gefur vöruskiptajöfnuð. Ef útflutningurinn er hærri en innflutningurinn er afgangur á vöruskiptum við útlönd. Ef innflutningur er hærri en útflutningur er halli á vöruskiptum við útlönd.
Viðskiptajöfnuður (reiknaður af Seðlabanka Íslands) er samtala vöruskiptajafnaðar, þjónustujafnaðar, jafnaðar þáttatekna (reiknaður af Seðlabanka Íslands) og rekstrarframlaga (reiknað af Seðlabanka Íslands).

2. Tími


2.1 Viðmiðunartími talnaefnis

Unnið er með mánaðartölur í hvert sinn og gögnin tilheyra þeim mánuði þegar viðkomandi vara er tollafgreidd inn eða út úr landinu.

2.2 Vinnslutími

Gögn hvers mánaðar eru tekin til vinnslu eftir lok viðmiðunarmánaðar og eru gefin út að jafnaði í lok þess mánaðar, u.þ.b. 4-5 vikum eftir lok viðmiðunarmánaðar. Bráðabirgðatölur eru gefnar út í kringum 5. mánaðardag næsta mánaðar á eftir viðmiðunarmánuði. Við yfirferð gagna fyrir hvern mánuð á yfirstandandi ári eru gögn fyrri mánaða leiðrétt ef ástæða telst til. Gefnar eru út bráðarbirgðatölur fyrir hvert ár í lok janúar ársins á eftir. Frá þeim tíma eru tölur ársins endurskoðaðar og lokatölur fyrir árið eru gefnar út í maí árið á eftir viðmiðunarári. Lokatölur árs teljast endanlegar og eru ekki endurskoðaðar nema að vísbendingar séu um að stórkostlegar villur séu til staðar. Viðmiðið er þá að fjárhæð leiðréttingar þurfi að vera 0,5% af ársupphæð útflutnings/innflutnings eða meira til að viðkomandi ár verði opnað aftur.

2.3 Stundvísi birtingar

Útgáfa talna um utanríkisverslun vöru fylgir birtingaráætlun fyrir ár í senn sem er birt í nóvember árið á undan viðmiðunarári og er á vef Hagstofunnar. Þessari áætlun er fylgt, nema í undantekningartilvikum. Birtingartími er kl. 9 að morgni.

2.4 Tíðni birtinga

Í hvert sinn eru birtar mánaðartölur og tölur samtals frá áramótum, t.d. fyrir febrúar eru bæði birtar janúar og febrúartölur, Tölur eru því birtar 25 sinnum á ári.

3. Áreiðanleiki og öryggismörk


3.1 Nákvæmni gagna og áreiðanleiki

Hverjum innflytjanda og útflytjanda skylt að skila inn tollskýrslu fyrir innflutning og útflutning á vöru. Má ætla að tollskýrslur nái yfir mestan hluti utanríkisverslunar vöru og reynir Hagstofan að fylgjast með því, t.d. í gegnum fjölmiðla.
Hins vegar er nokkuð um að tímatöf sé í gögnunum og því komi hluti innflutnings og útflutnings ekki fram í þeim mánuðum sem innflutningurinn og útflutningurinn raunverulega á sér stað.
Einnig eru villur í gögnunum (skráningarskekkjur, upplýsingar vanta eða eru rangar) sem reynt er að lágmarka með yfirferð yfir gögnin.
Samt sem áður er ekki unnt að fara yfir allar færslur sem þýðir að villur geta farið framhjá skoðun.

Til að finna villur í gögnunum og þar með auka áreiðanleika eru gögnin prófuð:
1.Við upphaf vinnslu eru gögn hvers mánaðar keyrð í gegnum ferli sem eyðir út færslum sem ekki eiga að vera með (t.d. innflutningur á frísvæði).
2.Villur í vöruviðskiptum geta verið af tvennum toga, annars vegar villur sem hægt er að prófa með óyggjandi niðurstöðum og hins vegar villur sem aðeins er hægt leiða líkur að.
Villur sem hægt er að prófa með óyggjandi niðurstöðum eru þannig að skráningu er áfátt, upplýsingar stangast á við upplýsingar í skrám utanríkisverslunar (t.d. tollskrárnúmer er ekki til, land er ekki til) eða rökvillur finnast (t.d. fob verð er hærra en cif verð). Þessar villur koma í ljós þegar gögn viðkomandi mánaðar eru reglubundið samkeyrð við aðrar tölvuskrár.
Villur sem aðeins er hægt að leiða líkur að er reynt að ná utan um með prófunum á gögnunum:
Skoðað er samhengi verðs og magns, samhengi verðs og einingarfjölda þegar um hann er að ræða og samhengi magns og einingarfjölda þegar um hann er að ræða með því að reiknað er út meðalverð hverrar færslu og það borið saman við meðalverð samsvarandi færslna síðustu tólf mánuði (miðað við flæði, númer og land þegar færslur eru nógu margar, annars flæði og númer). Meðalverðið er annað hvort samþykkt eða því hafnað miðað við staðalfráviksprófun.
Aðrar prófanir eru t.d. þær að allar færslur sem hafa flæði, númer og land sem ekki hefur komið fyrir síðustu 12 mánuði eru skoðaðar sérstaklega, valin lönd eru skoðuð, ákveðnir tollundanþágukódar eru skoðaðir, ákveðin númer eru alltaf skoðuð, allar færslur yfir ákveðinni fjárhæð eru alltaf skoðaðar o.s.frv., o.s.frv.

3.2 Skekkjuvaldar í gögnum

Helstu skekkjuvaldar í gögnum eru:
-rangt tollskrárnúmer er valið fyrir viðkomandi vöru
-verðið er rangt
-magnið er rangt,
-einingarfjölda vantar eða er rangur
-upprunaland eða neysluland er rangt
-gengi/gjaldmiðill er rangur og því verð rangt

3.3 Tölur um öryggismörk/skekkjumælingar

Engar tölur um skekkju eða öryggismörk hafa verið reiknaðar út.

4. Samanburður


4.1 Samanburðarhæfi milli tímabila

Frá 1988 er til samfelld flokkunarröð, en frá þeim tíma er bæði innflutningur og útflutningur skráður samkvæmt tollskrárnúmerum. Samanburður á einstökum vörum er samt ekki mögulegur í öllum tilvikum þar sem breytingar eru gerðar á tollskrárnúmerum, yfirleitt árlega. Hins vegar er hægt að bera saman meira samandregin gögn, eins og tollflokka.
Aðrar flokkanir eru til sem ná yfir lengra tímabil, t.d. Hagstofuflokkun sem er forveri núgildandi vörutegundaflokkunar og SITC flokkun en einnig hafa verið gerðar breytingar á þeim. Árið 1988, þegar ný tollskrá var tekin upp, var gerð viðamikil breyting á Hagstofuflokkun og 3. endurskoðun af SITC flokkun var tekin upp. Fjórða endurskoðun af SITC flokkun var tekin upp 2008. SITC flokkun, 3. endurskoðun, er til fyrir 1-5 stafi frá 1988, er til í 4. endurskoðun frá 2008 og BEC er til fyrir 1-3 stafi frá 1988 svo helstu flokkanir séu nefndar. Flokkanir gefa magn, einingafjölda, fob verð og cif verð frá 1988. Vörutegundaflokkun leysti Hagstofuflokkun af hólmi árið 2001.

4.2 Samanburður við aðrar hagtölur

Í hverjum mánuði þegar tölur um utanríkisverslun vöru eru teknar yfir frá tollembættum er keyrð út samanburðarskrá, einnig úr tollakerfi, sem sýnir heildartölur virðisaukaskatts á innfluttum vörum í viðkomandi mánuði. Þessi keyrsla er gerð í þeim tilgangi að stemma af þau gögn sem keyrð eru úr tollakerfinu.
Að einhverju marki hafa verið gerðar spegilrannsóknir á utanríkisverslun vöru, þ.e. þá er borið saman hvað Ísland flytur út af vörum til ákveðins lands og hvað það land skráir hjá sér sem innflutning á vörum frá Íslandi og öfugt.
Hægt að bera utanríkisverslun vöru saman við ýmsar hagtölur en ekki hefur verið farið út í slíkan samanburð vegna umfangs þess.

4.3 Samband milli bráðabirgðatalna og lokatalna

Bráðabirgðatölur fyrir heildarútflutning og heildarinnflutning í fjárhæðum fyrir einstaka mánuði hafa reynst góður mælikvarði á síðar útgefnar heildartölur fyrir viðkomandi mánuði, enda er stór hluti leiðréttinga hvers mánaðar fyrir sig fólginn í tilfærslum á lönd og tollskrárnúmer sem hefur ekki áhrif á heildarfjárhæðir. Árstölur eru yfirfarnar eftir að árinu er lokið auk þess sem áður útgefnir mánuðir fyrir viðkomandi ár eru leiðréttir í vinnslu eins og þurfa þykir og því geta tölur útgefnar í árslok og eftir því sem líður á árið verið frábrugðnar þeim tölum sem gefnar voru út fyrr á árinu fyrir einstaka mánuði og samtals frá áramótum.

5. Aðgangur að upplýsingum


5.1 Miðlunarleiðir

Fréttir, birtar á vef Hagstofunnar
Gefnar út mánaðarlega með bráðabirgðatölum á íslensku og ensku og eftir vinnslu hvers mánaðar á íslensku (með mánaðartölum og uppsafnað frá áramótum) og á ensku (uppsafnað frá áramótum).

Hagtölur, efnisflokkaðar veftöflur (bráðabirgðatölur, mánaðarlegar tölur, uppsafnaðar tölur frá áramótum, árlegar tölur, eftir ýmsum flokkunum, löndum og markaðssvæðum auk sögulegra hagtalna) og í Hagvísum.

Upplýsingar um aðferðir og flokkarnir er hægt að finna undir Aðferðir og flokkanir í utanríkisverslun vöru á heimasíðu Hagstofunnar.

Í Iceland in figures er að finna kafla um utanríkisverslun vöru sem inniheldur töflur um utanríkisverslun vöru.

Upplýsingar um vöruviðskipti eru sendar reglubundið til helstu alþjóðastofnana sem setja þær í gagnagrunn sinn, s.s. Sameinuðu þjóðanna, OECD, Eurostat o.fl.

Upplýsingar eru sendar til áskrifenda, mánaðarlega, ársfjórðungslega og árlega.

5.2 Grunngögn; varðveisla og notkunarmöguleikar

Fjölmargar skrár innihalda gögn um vöruviðskipt, þ.e. mest sundurliðuð gögn, mánaðargögn, ársgögn og fylgiskrár þeirra. Gögn um vöruviðskipti eru geymd í gagnabanka Hagstofunnar. Ekki er veittur aðgangur að gögnunum sjálfum, en unnt er að fá upplýsingar veittar.

5.3 Skýrslur

Aðferðafræði og flokkanir í utanríkisverslun vöru er birt er á vef Hagstofunnar.

Leiðbeiningar Sameinuðu þjóðanna um skilgreiningu og meðferð talnaefnis um utanríkisverslun vöru er hægt að finna í International Merchandise Trade Statistics, Concepts and Definitions 2010 Statistical Papers, Series M no. 52, (United Nations, New York 2011).

5.4 Aðrar upplýsingar

Unnt er að sjá tölur um utanríkisverslun Íslands í ýmsum útgáfum frá alþjóðastofnunum, s.s. Sameinuðu þjóðunum, Eurostat og OECD.

Utanríkisverslunardeild og upplýsingasvið veita allar upplýsingar um utanríkisverslun. Póstföng og símanúmer má sjá á vef Hagstofunnar.

© Hagstofa �slands, �ann 13-12-2016