Vísitala byggingarkostnaðar


0. Skráningaratriði fyrir viðfangsefni


0.1 Heiti

Vísitala byggingarkostnaðar

0.2 Efnisflokkur

Verðlag og neysla

0.3 Umsjón; stofnun, deild, sérfræðingur o.s.frv.

Vísitöludeild Hagstofu Íslands
Paula Hartung
byggingarvisitala@hagstofa.is
Sími 528 1209

0.4 Tilgangur og aðdragandi

Vísitölu byggingarkostnaðar er ætlað að sýna breytingar á kostnaði við byggingu ákveðinnar tegundar íbúðarhúsnæðis (18 íbúða fjölbýlishúss) á höfuðborgarsvæðinu samkvæmt lögum nr. 42 frá 1987. Tekið er tillit til endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu á verkstað við útreikning vísitölunnar.
Vísitala byggingarkostnaðar hefur verið reiknuð frá árinu 1939 en síðan hefur verið skipt um grunn fimm sinnum, árin 1955, 1975, 1983, 1987 og 2010. Vísitalan er reist á þeim grunni sem Hagstofan ákveður að höfðu samráði við fagaðila og sérfræðinga í byggingariðnaði.

0.5 Notendur og notkunarsvið

Byggingarvísitalan er fyrst og fremst notuð til verðtryggingar verksamninga í byggingariðnaði en önnur not hennar eru til að mynda:
· við mat verðlagsbreytinga í byggingariðnaði,
· við uppfærslu á brunabótamati fasteigna, svo sem hjá Þjóðskrá Íslands eða tryggingarfélögum,
· áætlanagerð og kostnaðarmat,
· ákvörðun gatnagerðargjalda,
· til staðvirðingar á ýmsum stærðum og
· til verðtryggingar leigu.

0.6 Heimildir

Grunnur vísitölunnar er byggður á kostnaði við ákveðið "vísitöluhús", sem er 18 íbúða fjölbýlishús á höfuðborgarsvæðinu.
Í hverjum mánuði er gerð verðkönnun hjá fjölda fyrirtækja og verslana sem selja vörur og þjónustu í byggingariðnaði. Verðupplýsingum er skilað rafrænt í gegnum vefþjóna Hagstofu Íslands.

0.7 Lagalegur grundvöllur fyrir hagskýrslugerð

Vísitalan er reiknuð samkvæmt lögum nr. 42/1987 með síðari breytingum.

0.8 Svarbyrði við innsöfnun

Með rafrænni gagnasöfnun er svarbyrði haldið í lágmarki. Aðilar sem veita upplýsingar um verð á fáum vörum skrá verð þeirra í eyðublöð á vefskilasvæði hjá Hagstofu Íslands. Þegar um meira magn upplýsinga er að ræða er þeim gefinn kostur á að skila rafrænum verðtilboðum í fylgiskrám í gegnum vefskilasvæðið á stöðluðu formi skilgreindu af Hagstofunni. Svarbyrði er mest við gangsetningu nýs grunns, þegar vörur eru valdar til verðmælingar. Hins vegar er svarbyrði við útfyllingu vefeyðublaða eða skil á fylgiskrám lítil.
0.9 Ákvæði vegna EES og ESB

0.9 Ákvæði vegna EES og ESB

Engin ákvæði eru um byggingarvísitölur í EES löggjöf.

1. Efni


1.1 Efnislýsing

Vísitala byggingarkostnaðar er aðfangavísitala. Verðmælingar ná til allra aðfanga, þ.e. vinnu, efnis, vélaleigu, flutninga og þess háttar, sem eru notuð við að reisa vísitöluhúsið. Verð aðfanga er vegið saman í þeim hlutföllum sem finna má í magngrunni, þ.e. í magnskrá í grunni vísitölunnar.

1.2 Tölfræðileg hugtök

Vísitalan er fastgrunnsvísitala af Laspeyres gerð. Reiknuð eru margfeldismeðaltöl verðmælinga. Gefnar eru út undirvísitölur eftir byggingarstigum skv. ÍST51, iðngreinum og aðfangaflokkum.

2. Tími


2.1 Viðmiðunartími talnaefnis

Vísitalan er reist á verðlagi um miðjan hvern mánuð og gildir fyrir mánuðinn eftir útreikningsmánuð skv. lögum um vísitölu byggingarkostnaðar.

2.2 Vinnslutími

Vísitalan er yfirleitt birt á fimmta virka degi frá því að verðsöfnun hófst um miðjan hvern mánuð.

2.3 Stundvísi birtingar

Vísitalan er birt samkvæmt útgáfuáætlun kl. 9:00 að morgni.
Útgáfuáætlun fyrir ár hvert er birt á vef Hagstofunnar í nóvember.

2.4 Tíðni birtinga

Vísitalan er birt í hverjum mánuði.

3. Áreiðanleiki og öryggismörk


3.1 Nákvæmni gagna og áreiðanleiki

Vísitalan mælir nákvæmlega allan kostnað við að byggja vísitöluhús frá grunni. Húsið er valið þannig að það lýsi vel þeim byggingarháttum sem helst eru notaðir. Byggingaraðilar vísitöluhússins tóku saman ítarlega magnskrá, og eru byggingarvörur valdar þannig að þær uppfylli sem best lýsingar úr magnskránni auk almennra gæðakrafna sem gerðar eru. Þannig getur vöruúrvalið í verðmælingunni tekið breytingum ef nýjar vörur taka við hlutverki einhverra sem fyrir eru. Með þessu helst vörusafnið lifandi og lýsandi fyrir aðfanganotkun við húsbyggingar. Þar sem vísitalan er fastgrunnsvísitala verða stærri breytingar á byggingarháttum þó aðeins teknar inn í gegnum grunnskipti.
Vinnuliðir vísitölunnar eru byggðir á mati á kjarasamningum sem gilda hjá starfsfólki í byggingariðnaði.

3.2 Skekkjuvaldar í gögnum

Magngrunnsskekkja: Raunverulegt hús liggur til grundvallar magngrunni. Húsið er valið þannig að það lýsi vel þeirri byggingartækni sem helst er notuð á þeim tíma sem valið fer fram. Nýbyggingar eru þó fjölbreyttar að gerð og því óhjákvæmilega frábrugðnar vísitöluhúsinu á einn eða annan hátt. Sömuleiðis er byggingartækni breytingum háð og eftir því sem lengri tími líður frá grunnskiptum er viðbúið að magngrunnurinn verði ekki jafn lýsandi fyrir nýbyggingar.
Skekkjur vegna úreldingar á aðföngum: Aðföng í húsbygginguna eru valin þannig að þau uppfylli þær kröfur sem gerðar eru í magngrunninum. Verslanir og þjónustuaðilar veita upplýsingar um verð á þeim lausnum sem algengt er að byggingarverktakar velji. Söluaðilar skipta út aðföngum þegar vörur úreldast og heldur það skekkjum vegna úreldingar vörugrunnsins í lágmarki. Skekkjur af þessu tagi eru þó alltaf fyrir hendi ef viðeigandi uppfærslum er ekki sinnt sem skyldi.
Úrtaksskekkja: Verslanir og þjónustuaðilar eru handvalin þannig að verðmælingar þeki magngrunninn sem best. Ekki er tryggt að verðþróun hjá þeim sé lýsandi fyrir alla, en leitast er við að meta hvern magnlið með verðmælingum frá að minnsta kosti þremur aðilum til að minnka skekkju af þessum völdum.
Mæliskekkjur: Hættan á mæliskekkjum er mest þegar þjálfa þarf nýja einstaklinga til að veita upplýsingar um verð. Í flestum tilfellum eru verðmælingar tengdar vörunúmerum í rekstrarkerfum verslana og dregur það úr hættu á að sótt sé rangt verð vöru. Þar sem verðgjafar skrá verð inn í vörulista í vefeyðublöðum er hætta á innsláttarvillum.
Úrvinnsluskekkjur: Með rafrænni gagnasöfnun er hættan á skráningarskekkjum lágmörkuð. Upplýsingar um verð eru lesnar beint inn í gagnagrunn og þaðan er unnið úr þeim án þess að átt sé frekar við þær. Úrvinnsluskekkjur geta komið fram þegar villur í gögnum finnast ekki við leit eða þegar skipt er um vörur til verðmælinga.

3.3 Tölur um öryggismörk/skekkjumælingar

Ekki hefur verið gerð sérstök athugun á umfangi skekkja í byggingarvísitölunni

4. Samanburður


4.1 Samanburðarhæfi milli tímabila

Samanburður er auðveldur innan grunntíma. Vísitölustig eru samanburðarhæf milli grunna með keðjutengingu. Aðferðarfræðibreytingar, stórfelldar flokkunarbreytingar og miklar breytingar á efnum og aðferðum í byggingariðnaði geta minnkað samanburðarhæfi til lengri tíma litið.

4.2 Samanburður við aðrar hagtölur

Ekki hefur verið gerður samanburður á byggingarvísitölu og öðum vísitölum

4.3 Samband milli bráðabirgðatalna og lokatalna

Bráðabirgðatölur eru ekki birtar.

5. Aðgangur að upplýsingum


5.1 Miðlunarleiðir

· Fréttir á vef Hagstofunnar,
· hagtölur í efnisflokkuðum veftöflum,
· Hagtíðindi,
· Landshagir, árbók Hagstofu Íslands og
· Símsvörun.

5.2 Grunngögn; varðveisla og notkunarmöguleikar

Grunngögn eru varðveitt á Hagstofu og eru ekki aðgengileg öðrum en starfsmönnum vísitöludeildar.

5.3 Skýrslur

Skýrslur eru birtar á vef eða í Hagtíðindum ef þurfa þykir.

5.4 Aðrar upplýsingar

Nánari upplýsingar um vísitölu byggingarkostnaðar eru veittar af sérfræðingum vísitöludeildar. Senda má póst á netfangið byggingarvisitala@hagstofa.is eða hringja í upplýsingasíma vísitöludeildar 528-1200.

© Hagstofa �slands, �ann 26-1-2018