Heildarlaunakostnaður jókst um 3,6% frá fyrri ársfjórðungi í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð og um 0,4% í iðnaði. Á sama tímabili dróst heildarlaunakostnaður saman um 1,6% í samgöngum og flutningum og um 4,6% í verslun og í ýmissi viðgerðarþjónustu.  

Heildarlaunakostnaður án greiðslna sem gerðar eru upp óreglulega jókst einnig mest í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð eða um 4,0% frá fyrri ársfjórðungi. Í iðnaði mældist aukningin 1,9% en 1,6% í samgöngum og flutningum. Í verslun og ýmissi viðgerðarþjónustu dróst heildarlaunakostnaður hins vegar saman um 3,3% á tímabilinu þegar horft er framhjá greiðslum sem gerðar eru upp óreglulega.

Frá fyrra ári jókst heildarlaunakostnaður mest í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð eða um 11,9% en minnst í verslun og ýmissi viðgerðarþjónustu, 0,3%. Á sama tímabili jókst heildarlaunakostnaður um 8,6% í samgögnum og flutningum og  5,8% í iðnaði.

Í vísitölu launakostnaðar á þriðja ársfjórðungi 2008 gætir áhrifa yfirlýsingar sem undirrituð var í tengslum við gerð kjarasamninga milli Samtaka atvinnulífisins (SA) og landssambanda og stærstu aðildarfélaga Alþýðusambands Íslands (ASÍ) 17. febrúar síðastliðinn. Í yfirlýsingunni er kveðið á um að atvinnurekendur skuli greiða 0,13% af öllum launum í endurhæfingarsjóð frá og með 1. júní 2008. Þetta samningsákvæði nær til allra félagsmanna samningsaðila. Atvinnurekendum er hins vegar heimilt að greiða  fyrir alla starfsmenn  sína óháð félagsaðild.

Vísitala launakostnaðar er kostnaðarvísitala sem sýnir breytingar á launakostnaði á vinnustund og er ekki leiðrétt fyrir breytingum í samsetningu vinnuafls og vinnustunda. Niðurstöður eru birtar með fyrirvara um breytingar. Vísitala launakostnaðar er gefin út ársfjórðungslega og reiknuð samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og Ráðsins nr. 450/2003. 

Talnaefni