FRÉTT VÍSINDI OG TÆKNI 11. OKTÓBER 2017

Heildarútgjöld til rannsókna- og þróunarstarfs (R&Þ) á árinu 2016 voru 50,9 milljarðar króna, en það jafngildir 2,08% af vergri landsframleiðslu. Árið 2015 voru útgjöldin 48,5 milljarðar króna og jafngildir það 2,17% af vergri landsframleiðslu. Hlutfallsleg útgjöld til R&Þ hafa því lækkað um sem nemur 0,09% af vergri landsframleiðslu enda þótt útgjöldin hafi hækkað á milli ára um 2,4 milljarða.

Gagnasöfnun Hagstofunnar um útgjöld til R&Þ nær yfir fyrirtæki, sjálfseignastofnanir, háskólastofnanir og aðrar opinberar stofnanir. Skiptast heildarútgjöldin þannig að útgjöld fyrirtækja og sjálfseignastofnana eru 32,1 milljarður, útgjöld háskólastofnana 16,3 milljarðar og heildarútgjöld annarra opinberra stofnana 2,4 milljarðar.


Hagstofan safnar gögnum um útgjöld til R&Þ árlega frá háskólastofnunum og öðrum opinberum stofnunum en annað hvert ár frá fyrirtækjum og sjálfseignarstofnunum. Fyrirtæki eru spurð ítarlegri spurninga um útgjöld liðins árs en áætluð útgjöld sama árs og af þeim sökum er talnaefni um fjármögnun og fjölda starfandi í greininni uppfært annað hvert ár. Annað talnaefni um R&Þ er uppfært árlega og má nálgast á vef Hagstofunnar undir „Atvinnuvegir: Vísindi og tækni: Rannsóknir og þróun“.

Athygli er vakin á því að áður birtar niðurstöður um heildarútgjöld til R&Þ 2015, frá 11. október 2016, miðuðust við bráðabirgðatölur um verga landsframleiðslu sem komu út í september sama ár. Hafa þær tölur síðan verið uppfærðar, fyrst í mars og nú síðast í september á þessu ári. Við uppfærsluna fóru heildarútgjöldin sem hlutfall af landsframleiðslu úr 2,19% í 2,17%.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1260 , netfang fyrirtaekjatolfraedi@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.