FRÉTT ÞJÓÐHAGSSPÁ 17. FEBRÚAR 2017

Hagstofa Íslands hefur í dag gefið út endurskoðaða þjóðhagsspá að vetri í ritröð sinni, Hagtíðindum. Spáin nær yfir árin 2016 til 2022.

Mikil umsvif eru í íslenskum þjóðarbúskap um þessar mundir en neysla, fjárfest­ing og utanríkisverslun hafa verið í örum vexti undanfarin misseri. Nýjustu niður­stöður þjóðhagsreikninga sem spáin byggist á ná til þriðja ársfjórðungs 2016.

Talið er að landsframleiðsla hafi aukist um 5,9% árið 2016 en spáð er að hún aukist um 4,3% árið 2017 og um 2,5–3,0% árlega árin 2018–2022.

Einkaneysla er talin hafa aukist um 7% árið 2016 en gert er ráð fyrir að hún aukist um 5,9% árið 2017, 3,9% árið 2018 og um 2,5–2,9% á ári seinni hluta spátímans. Reiknað er með að samneysluvöxtur verði áfram hóflegur eða sem nemur 1,5% árlega.

Fjárfesting er talin hafa aukist um 22,7% árið 2016 og spáð er að hún aukist um 12,6% árið 2017 en úr henni dragi eftir það. Gert er ráð fyrir talsverðri aukningu íbúða­fjárfestingar og opinberrar fjárfestingar árin 2017 og 2018.

Verðbólga hefur í þrjú ár verið undir markmiði Seðlabankans og ef húnæðisliður neysluverðsvísitölunnar er ekki talinn með hefur hún nánast staðið í stað. Reikn­að er með að verðbólga aukist nokkuð árin 2017 og 2018 en víki ekki veru­lega frá verðbólgumarkmiði og stefni í átt að því árin 2019–2022.

Breyting launa hefur verið í samræmi við fyrri spár og sæmilega friðvænlegt á vinnumarkaði framundir árslok 2016. Langvinnt sjómannaverkfall og möguleg endurskoðun kjarasamninga á almennum vinnumarkaði hefur nokkra óvissu í för með sér.

Hagstofan gaf síðast út þjóðhagsspá 4. nóvember síðastliðinn og er næsta útgáfa ráðgerð í maí 2017.

Þjóðhagsspá að vetri, endurskoðun - Hagtíðindi

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1073 , netfang Marino.Melsted@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.