FRÉTT MENNTUN 22. JÚNÍ 2018

Haustið 2012 hófu 4.677 nemar nám í dagskóla á framhaldsskólastigi á Íslandi. Fjórum árum síðar höfðu 52% þeirra brautskráðst úr námi á framhaldsskólastigi sem var að minnsta kosti tvö ár að lengd. Þá höfðu rúm 26% hætt námi eða tekið sér tímabundið hlé en tæp 22% voru enn í námi án þess að hafa brautskráðst. Stytting náms til stúdentsprófs er ekki að fullu komin fram í þeim tölum sem þessi samantekt nær til.

Fleiri ljúka námi í framhaldsskólum á höfuðborgarsvæðinu en utan þess. Þannig höfðu 55% þeirra nýnema, sem hófu nám í skólum á höfuðborgarsvæðinu haustið 2012 lokið námi árið 2016 en 48% þeirra sem hófu nám í skólum utan höfuðborgarsvæðisins. Rúm 23% nýnema á höfuðborgarsvæðinu höfðu hætt námi án þess að útskrifast en rúmt 31% nýnema í skólum utan höfuðborgarsvæðisins.

Brautskráningarhlutfall hefur hækkað síðustu ár
Brautskráningarhlutfall (þ.e. hlutfall nýnema sem hefur útskrifast) hefur aukist hægt frá árinu 2000. Fjórum árum eftir innritun höfðu rúmlega 43% nýnema haustsins 2000 útskrifast en 52% nýnema haustsins 2012. Á móti kemur að nýnemum sem eru enn í námi fjórum árum eftir upphaf náms hefur fækkað lítillega í tæp 22% en þetta hlutfall var tæp 28% árin 2004 og 2005. Brotthvarf nýnema af framhaldsskólastigi fjórum árum eftir upphaf náms hefur sveiflast á sama tíma og verið á bilinu 25% til 30%.

Færri innflytjendur útskrifast úr framhaldsskóla en nemendur af íslenskum uppruna
Haustið 2012 hóf 261 innflytjandi nám í dagskóla á framhaldsskólastigi. Fjórum árum síðar höfðu 29% þeirra útskrifast. Brautskráningarhlutfall er hæst meðal nemenda fæddra erlendis með íslenskan bakgrunn, en 56% þeirra sem hófu nám haustið 2012 höfðu útskrifast árið 2016, og 54% þeirra sem hafa engan erlendan bakgrunn.

Konur eru líklegri en karlar til að útskrifast úr námi óháð bakgrunni og nýnemar í bóknámi eru líklegri til að útskrifast en nýnemar í starfsnámi.

Hvað er brotthvarf?
Brotthvarf nemenda úr skóla má skilgreina á marga vegu. Hér er sú aðferð valin að fylgja eftir nemendum sem töldust til nýnema að hausti og stunduðu nám í dagskóla, svokallað árgangsbrotthvarf.

Um gögnin
Nýnemar eru þeir nemendur sem voru skráðir í nám á framhaldsskólastigi í fyrsta skipti að hausti miðað við upphaf nemendaskrár Hagstofu Íslands árið 1975. Allir dagskólanemendur eru teknir með óháð aldri. Til brautskráðra teljast þeir sem hafa verið brautskráðir úr námi á framhaldsskólastigi sem er a.m.k. tvö ár að lengd. Til nemenda sem enn eru í námi teljast nemendur í dagskóla, kvöldskóla og í fjarnámi á framhaldsskólastigi og háskólastigi á Íslandi að hausti sem ekki hafa útskrifast. Upplýsingar um bakgrunn nemenda eru teknar úr mannfjöldagögnum Hagstofu Íslands.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1000 , netfang menntamal@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.