Launakostnaður á greidda stund árið 2012 var hæstur í Noregi
Árið 2012 var launakostnaður á greidda stund í Evrópu hæstur í Noregi, en þar kostaði hver stund 57,1 evru sem er rúmlega sextánfaldur kostnaður miðað við Búlgaríu þar sem hann var lægstur, 3,4 evrur. Nánari samanburð á milli landa má finna á mynd 1. Þar má meðal annars sjá að á Íslandi var launakostnaður á greidda stund að meðaltali 23,2 evrur árið 2012, sem var lægri en að meðaltali hjá löndum Evrópusambandsins þar sem hann var 24,1 evrur. Launakostnaður var að jafnaði lægri í Austur- og Suðaustur-Evrópu.

Ef einungis er horft til Evrópusambandslanda sem voru í Evrópska myntbandalaginu árið 2012 þá var launakostnaður á greidda stund hæstur að meðaltali í Belgíu eða 38,1 evra, sem er rúmlega fjórfalt miðað við kostnaðinn í Eistlandi þar sem launakostnaður var lægstur, 8,6 evrur.

Sé launakostnaður á greidda stund borinn saman á jafnvirðisgildi (PPS) minnkar munurinn á milli landa. Launakostnaður var áfram hæstur í Noregi eða 36,6 PPS sem er sexfaldur launakostnaður í Lettlandi þar sem hann var lægstur, eða 6,3 PPS. Launakostnaður í Noregi og Sviss mældur í jafnvirðisgildi var þannig nær því sem gerist í löndum Evrópusambandsins en ef aðeins er horft til launakostnaðar í evrum. Hlutfallsleg breyting var mest í Makedóníu, þar sem launakostnaður á jafnvirðisgildi var 150% hærri en í evrum.

Skýring:  Launakostnaður á greidda stund inniheldur ekki launakostnað vegna nema í verknámi. Landatákn merkt * eru þau lönd í Evrópusambandinu (ESB) sem höfðu aðra mynt en evru sem gjaldmiðil árið 2012. Landaheiti og landatákn má sjá hér.

Launakostnaður á Íslandi mældur á jafnvirðisgildi árið 2012 var 20,7 PPS sem er lægra en meðaltal landa í Evrópusambandinu sem var 23,4 PPS. Jafnvirðisgildi byggir á verðsamanburði á sömu eða sambærilegri vöru og þjónustu á milli landa og endurspegla hlutfallslegt verðlag, í þessu tilfelli launakostnað á greidda stund.

Áhrif gengis á launakostnað
Launakostnaður á greidda stund hefur breyst nokkuð milli áranna 2008 og 2012 í flestum löndum, hvort heldur sem mælt í evrum eða eigin mynt. Í Lettlandi og á Kýpur voru breytingarnar óverulegar á meðan launakostnaður á greidda stund í Búlgaríu hækkaði um 33,6%. Á mynd 2 sem sýnir breytingu á launakostnaði milli áranna 2008 og 2012 má einnig sjá áhrif af gengi mynta hjá þeim löndum sem hafa eigin mynt, eins og til dæmis Ísland og Svíþjóð. Í þeim löndum sem eru hluti af Evrópska myntbandalaginu og hafa evru sem gjaldmiðil gætir engra gengisáhrifa.


 
Skýring:  Landatákn merkt * eru þau lönd í Evrópusambandinu (ESB) sem höfðu aðra mynt en evru sem gjaldmiðil árið 2012. Landaheiti og landatákn má sjá hér.

Gengi sænsku krónunnar styrktist gagnvart evru frá árinu 2008 til 2012 sem leiddi til hækkunar á launakostnaði á greidda stund um 17,8% í evrum en um 6,6% í sænskum krónum. Í Danmörku og Litháen gætti óverulegrar gengisstyrkingar á meðan gengi annarra landa með eigin mynt veiktist gagnvart evru. Í þeim löndum hækkaði launakostnaður í evrum minna en launakostnaður í gjaldmiðli landsins. Áhrifin voru mest í Rúmeníu eða 20,8 prósentustig til lækkunar, 19,7 í Póllandi og 14,2 í Ungverjalandi.

Milli áranna 2008 og 2012 hækkaði launakostnaður á greidda stund á Íslandi um 18,0% í íslenskum krónum. Þegar kostnaðurinn var umreiknaður í evrur mælist hækkunin þó einungis 5,6% og gengisáhrif því 12,4 prósentustig til lækkunar. Árið 2008 var viðmiðunargengið 143,83 krónur fyrir hverja evru en árið 2012 var viðmiðunargengið 160,73 krónur. Þess ber að geta að miðgengi Seðlabanka Íslands árið 2008 var 127,46 krónur á hverja evru sem er lægra en niðurstöður Eurostat miða við. Ef tekið er mið af því hækkaði launakostnaður á greidda stund í evrum á milli áranna 2008 og 2012 um 6,4% á Íslandi í stað 5,6% með viðmunargengi Eurostat.

Um rannsókn á launakostnaði
Rannsókn á launakostnaði (Labour Cost Survey, LCS) er rannsókn sem framkvæmd er í löndum í Evrópu á fjögurra ára fresti. Rannsókninni er ætlað að veita samanburðarhæfar upplýsingar um launakostnað og samsetningu hans í einstökum atvinnugreinum innan Evrópu. Í rannsókninni er jafnframt safnað upplýsingum um fjölda starfsmanna og vinnutíma.

Umfjöllun um launakostnað hér að ofan miðar við allan launakostnað að frátöldum launakostnaði starfsnema í verknámi. Launakostnaður er samtala launagreiðslna og launatengdra gjalda, kostnaðar vegna starfsmenntunar, annars kostnaðar sem vinnuveitendur greiða og starfstengdra skatta að frádregnum styrkjum sem vinnuveitendur fá.

Á vef Hagstofu Evrópusambandins, Eurostat, er að finna frétt frá 15. desember 2014 með helstu niðurstöðum, auk almennrar umfjöllunar um breytingar á launakostnaði milli áranna 2008 og 2012 og samsetningar hans. Niðurstöður um rannsókn á launakostnað (LCS) í heild sinni er að finna á vef Eurostat. Nánari umfjöllun um launakostnað á Íslandi árið 2012 er að finna í Hagtíðindum um Launakostnað 2012 frá 17. desember 2014.

Talnaefni