FRÉTT HEILBRIGÐISMÁL 21. MARS 2017

Konur eru líklegri en karlar til að neita sér um heilbrigðisþjónustu sökum kostnaðar. Fæstir telja sig þurfa á geðheilbrigðisþjónustu að halda en fólk er hins vegar líklegast til að neita sér um hana sökum kostnaðar.

Fólk líklegast til að neita sér um geðheilbrigðisþjónustu
Niðurstöður evrópskrar heilsufarsrannsóknar sýna að um 60% fólks telja sig þurfa á læknisþjónustu að halda, tannlæknaþjónustu eða lyfseðilskyldum lyfjum. Rúm 19% þeirra sem þurftu tannlæknaþjónustu neituðu sér hins vegar um hana sökum kostnaðar, 9,5% um lyfseðilskyld lyf og um 8% um læknisþjónustu. Tæp 22% töldu sig þurfa geðheilbrigðisþjónustu en rúm 33% þeirra töldu sig ekki hafa ráð á henni.

Konur líklegri en karlar til að neita sér um heilbrigðisþjónustu
Konur eru líklegri en karlar til að telja sig þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda og þær eru einnig líklegri til að neita sér um slíka þjónustu sökum kostnaðar. Rúm 38% kvenna sem töldu sig þurfa geðheilbrigðisþjónustu neituðu sér um hana en 25% karla. Tæp 22% kvenna og um 17% karla sem þurftu tannlæknaþjónustu neituðu sér um hana. Um 11% kvenna sem þurftu lyfseðilskyld lyf höfðu ekki efni á þeim. Það sama átti við um nær 5% karla. Tæp 10% kvenna neituðu sér um læknisþjónustu sem þær töldu sig þurfa en rúm 6% karla.

Tekjulágir líklegri til að neita sér um heilbrigðisþjónustu
Ekkert samband er á milli tekna og þarfarinnar fyrir tiltekna heilbrigðisþjónustu að geðheilbrigðisþjónustu undanskilinni. Hlutfall þeirra sem töldu sig þurfa geðheilbrigðisþjónustu lækkaði eftir því sem tekjurnar voru hærri. Skýrt samband er hins vegar á milli tekna og þess að neita sér um tiltekna þjónustu sökum kostnaðar. Því lægri sem tekjurnar voru, því fleiri neituðu sér um þjónustu sem þeir töldu sig þurfa. Í neðsta tekjubilinu neituðu rúm 17% sér um læknisþjónustu, tæp 33% um tannlæknaþjónustu, tæp 17% um lyfseðilskyld lyf og um 45% um geðheilbrigðisþjónustu. Í efsta tekjubilinu neituðu tæp 3% sér um læknisþjónustu, tæp 8% um tannlæknaþjónustu, 3% um lyfseðilskyld lyf og um 21% um geðheilbrigðisþjónustu.


Um rannsóknina
Evrópska heilsufarsrannsóknin er samræmd rannsókn á heilsufari og heilsutengdri hegðun sem hagstofur á Evrópska efnahagssvæðinu framkvæma. Rannsóknin var gerð á Íslandi haustið 2015. Í úrtaki voru 5.700 einstaklingar sem valdir voru af handahófi úr þjóðskrá. Af þeim svaraði 4.001 einstaklingur sem þýðir að svarhlutfallið var 70,2%.

Fyrirvari um túlkun
Fjöldi þeirra sem neitar sér um þjónustu vegna kostnaðar er reiknaður sem hlutfall af þeim sem töldu sig þurfa á henni að halda. Mat á þörf fyrir þjónustu er huglægt og því má ætla að einhver munur sé á milli einstaklinga og hópa hvað þetta varðar.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1286 , netfang lifskjararannsokn@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.