FRÉTT FYRIRTÆKI 09. MAÍ 2018

Í lok árs 2017 voru konur 26,1% stjórnarmanna fyrirtækja sem greiða laun og skráð eru í hlutafélagaskrá. Hlutfall kvenna í stjórnum fyrirtækja var á bilinu 21,3% til 22,3% á árunum 1999 til 2006, hækkaði svo í 25,5% árið 2014, og hefur verið um 26% síðustu þrjú ár.

Árið 2017 voru konur 32,6% stjórnarmanna í fyrirtækjum með 50 launþega eða fleiri, líkt og árin tvö þar á undan. Til samanburðar var hlutfall þeirra í stjórnum stórra fyrirtækja 12,7% árið 2007 og 9,5% árið 1999. Árið 2010 voru samþykkt lög um að hlutfall hvors kyns skyldi vera yfir 40% í stjórnum fyrirtækja með fleiri en 50 starfsmenn, og tóku þau að fullu gildi í september 2013. Hlutfall kvenna í stjórnum fyrirtækja með yfir 50 launþega náði hámarki 33,2% árið 2014, en hefur heldur farið lækkandi síðan. Hlutfall kvenna í stjórnum fyrirtækja með færri en 50 launþega stendur nánast í stað milli ára, 25,7%.

Hlutfall kvenna í stöðu framkvæmdastjóra stendur í stað milli ára (22,1%) en frá 1999 varð hægfara aukning fram til ársins 2016. Hlutfall kvenna í stöðu stjórnarformanna var 23,9% í lok árs 2017, sem er það sama og árið 2016.

Frá síðustu birtingu hafa bæst við ítarlegri gögn um virkni fyrirtækja árið 2016. Tölur fyrir 2016 hafa verið uppfærðar með tilliti til þess. Nánari upplýsingar um hlutfall stjórnarmanna, stjórnarformanna og framkvæmdastjóra starfandi fyrirtækja eftir aldri einstaklinga, stærð fyrirtækja og atvinnugreinum er að finna á vef Hagstofunnar.

Talnaefni

 

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1260 , netfang fyrirtaekjatolfraedi@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.