FRÉTT FERÐAÞJÓNUSTA 31. MAÍ 2018

Gistinætur ferðamanna á öllum gististöðum í apríl síðastliðnum voru 534.700, en voru 576.600 í sama mánuði árið áður. Gistinætur á hótelum og gistiheimilum voru 344.700, gistinætur í gegnum vefsíður á borð við Airbnb 97.700, og 92.300 á öðrum tegundum gististaða.

Til viðbótar voru gistinætur erlendra ferðamanna utan hefðbundinna gististaða áætlaðar 27.700 í apríl, þar af 11.600 í bílum og 16.100 hjá vinum og ættingjum, í gegnum húsaskipti eða á öðrum stöðum þar sem ekki var greitt sérstaklega fyrir gistingu.

Gistinóttum á hótelum fækkaði um 6% í apríl
Gistinætur á hótelum í apríl síðastliðnum voru 276.300, sem er 6% samdráttur frá sama mánuði árið áður. Um 63% allra gistinátta voru á höfuðborgarsvæðinu eða 175.000.

Um 84% gistinátta á hótelum voru skráðar á erlenda ferðamenn. Erlendum gistinóttum fækkaði um 7% frá apríl í fyrra en gistinóttum Íslendinga fækkaði um 3%. Bandaríkjamenn gistu flestar nætur (68.100), síðan Bretar (43.800) og Þjóðverjar (16.700), en gistinætur Íslendinga voru 44.400.

Á tólf mánaða tímabili, frá maí 2017 til apríl 2018, var heildarfjöldi gistinátta á hótelum um 4.280.700 sem er 4% aukning miðað við sama tímabil árið áður.

Gistinætur á hótelum
  Apríl   Maí–apríl  
  2017 2018 % 2017 2018 %
             
Alls 294.349 276.281 -6 4.131.705 4.280.722 4
Höfuðborgarsvæði 181.933 174.993 -4 2.573.593 2.596.595 1
Suðurnes 20.281 18.803 -7 250.418 294.583 18
Vesturland og Vestfirðir 11.375 10.817 -5 183.047 193.537 6
Norðurland 20.784 19.549 -6 287.230 307.074 7
Austurland 5.240 4.099 -22 109.349 108.191 -1
Suðurland 54.736 48.020 -12 728.068 780.742 7
             
Íslendingar 45.953 44.362 -3 428.920 417.423 -3
Erlendir gestir 248.396 231.919 -7 3.702.785 3.863.299 4

55% nýting herbergja á hótelum í apríl
Herbergjanýting í apríl 2018 var 54,7%, sem er lækkun um 11,3 prósentustig frá apríl 2017 þegar hún var 66,0%. Á sama tíma hefur framboð gistirýmis aukist um 8,3% mælt í fjölda herbergja. Nýtingin í apríl var best á höfuðborgarsvæðinu, eða 65,7%.

Við áætlun á gistinóttum utan hefðbundinnar gistináttatalningar er stuðst við niðurstöður úr landamærarannsókn meðal erlendra ferðamanna sem framkvæmd er í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og gistináttatalningu Hagstofunnar. Við landsvæðaskiptingu þessara talna er stuðst við vefskröpun og gögn úr gistináttagrunni Hagstofunnar.

Tölur fyrir 2017 og 2018 eru bráðabirgðatölur. Um þessar mundir fer fram vinna við endurskoðun á skiptingu gistinátta eftir þjóðerni ferðamanna. Þessi vinna hefur ekki áhrif á heildarfjölda gistinátta en gæti haft áhrif á hlutfall milli erlendra og innlendra ferðamanna. 

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1000 , netfang gistiskyrslur@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.