FRÉTT FERÐAÞJÓNUSTA 21. JÚNÍ 2018

Hlutur ferðaþjónustu í landsframleiðslu nam 8,1% árið 2016. Til samanburðar nam hlutur ferðaþjónustunnar 6,2% árið 2015 og 5,2% árið 2014. Bráðabirgðatölur um áætlaða hlutdeild ferðaþjónustu í landsframleiðslu ársins 2017 verða birtar 20. júlí næstkomandi. Ferðaþjónustureikningar eru hliðarreikningar þjóðhagsreikninga og er ætlað að leggja mat á hlut ferðaþjónustunnar í hagkerfinu og þróun hennar sem atvinnugreinar.

Alls voru komur erlendra ferðamanna hingað til lands 2.146.273 árið 2016 sem var 35,2% aukning frá fyrra ári. Mestu munaði um aukningu í komum gistifarþega en heimsóknum þeirra fjölgaði um 39%. Komum daggesta, sem alla jafna koma með skemmtiferðaskipum, fjölgaði um 18,9% á milli ára. Aukning í fjölda gistinátta var 21,6% sem er nokkuð minni aukning en í fjölda heimsókna.

Í október 2017 voru birtar bráðbirgðaniðurstöður fyrir hlut ferðaþjónustu í landsframleiðslu fyrir árið 2016. Bráðabirgðaniðurstöður gáfu til kynna að hlutur ferðaþjónustu í landsframleiðslu hafi verið 8,4% borið saman við 8,1% samkvæmt endurskoðuðum niðurstöðum sem nú eru birtar. Mismun á bráðabirgðaniðurstöðum og endurskoðuðum niðurstöðum má að mestu leyti rekja til tiltekinna undirliða ferðaþjónustunnar sem voru endurskoðaðir til lækkunar bæði fyrir árið 2016 og fyrir fyrri ár. Þannig lækkaði áður birt gildi fyrir árið 2015 úr 6,7% niður í 6,2% og fyrir árið 2014 úr 5,6% í 5,2%. Lækkunin er minni fyrir árin þar á undan.

Hlutur ferðaþjónustu samanborið við aðra atvinnugreinaflokka árið 2016
Þegar hlutdeild ferðaþjónustu í landsframleiðslu er borin saman við aðrar atvinnugreinar þarf að hafa í huga að ferðaþjónusta er ekki til sem sérstök atvinnugrein í hefðbundinni atvinnugreinaflokkun, heldur er hún samsett grein þar sem lagt er saman tiltekið hlutfall af starfsemi annarra atvinnugreina.



Talnaefni 

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1142 , netfang Palmar.Thorsteinsson@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.