Frétt

fimmtudagur 12. febrúar 2009
Nr. 22/2009

Búferlaflutningar 2008 og leiðrétting fyrir 2007

Nú liggja fyrir á vef Hagstofu Íslands tölur um búferlaflutninga fyrir árið 2008 og leiðréttar tölur fyrir 2007. Búferlaflutningar eru gerðir upp ár hvert á grundvelli skráningardags í Þjóðskrá en ekki eftir því hvenær flutningur fór fram.

Fyrir réttu ári birti Hagstofa Íslands fréttatilkynningu um búferlaflutninga á árinu 2007. Í ljós hefur komið að tölur um flutninga til landsins á árinu 2007 voru of lágar en tölur ársins 2008 að sama skapi of háar. Ástæða þessa var óvenjuhátt hlutfall tilkynninga um flutninga á síðustu 5 mánuðum ársins 2007 sem ekki voru skráðir fyrr en í ársbyrjun 2008. Undir venjulegum kringumstæðum hefði Hagstofan ekki leiðrétt tölurnar, enda gefur uppgjör flutningstalna eftir skráningardegi afar góða og tímanlega mynd á flutningum viðkomandi árs. Í þetta skipti varð skráningartöfin hins vegar til þess að rangar ályktanir voru dregnar um fjölgun landsmanna á árinu 2007 og 2008. Því eru hér birtar leiðréttar tölur fyrir árið 2007 samhliða tölum um búferlaflutninga 2008.

Þessi leiðrétting mun einnig hafa áhrif á mat Hagstofunnar á tölum um íbúafjölda 1. janúar 2008, en leiðréttar tölur þess efnis verða birtar ásamt tölum um mannfjölda 1. janúar 2009 í fréttatilkynningu 24. febrúar næstkomandi. Þá mun Hagstofan efna til nýrrar tímaraðar sem birt verður þann 26. mars næstkomandi um búferlaflutninga 1988-2007 þar sem búferlaflutningar verða gerðir upp eftir flutningsdegi. Nánari grein er gerð fyrir leiðréttingunum og ástæðum hennar í minnisblaði sem Mannfjölda- og manntalsdeild hefur tekið saman.

Flutningur næstmestur árið 2007
Flutningsjöfnuður árið 2007 var 5.132. Aðeins einu sinni áður hefur aðflutningur verið meiri til landsins en það var árið 2006 (5.255). Mikið dró úr aðflutningi til landsins árið 2008 en þá fluttu 1.144 fleiri til landsins en frá því. 

Tæplega 1.700 fleiri konur en karlar fluttust til landsins 2008
Framundir 2003 var almenna reglan sú að fleiri konur fluttust til landsins en karlar. Þessi þróun snerist hraustlega við á tímabilinu frá 2004-2007. Frá 2004–2007 fluttust til landsins 5.913 fleiri karlar en konur, þar af 774 á árinu 2007. Árið 2008 snerist þetta við en þá fluttu til landsins 1.698 fleiri konur en karlar umfram brottflutta. Munar hér mestu um flutninga karla frá Austurlandi af landi brott. Fjöldi brottfluttra karla umfram aðflutta þaðan árið 2008 var 1.010 á móti 46 konum.

Tíðni innanlandsflutninga ekki verið jafn lág síðan 1987
Fjöldi innanlandsflutninga náði hámarki á árinu 2007 en þá voru skráðar í íbúaskrá þjóðskrár 58.186 flutningstilkynningar. Árið 2008 fækkaði þeim í 49.534, eða um 14,9%. Miðað við flutninga af hverjum 1.000 íbúum þarf að fara aftur til ársins 1987 til að finna jafn lága tíðni innanlandsflutninga. Þessi fækkun 2008 er án efa samofin lækkun íbúðaverðs á fasteignamarkaði og þrengra aðgengi að lánsfé.

Suðurnes taka forskotið, en Austurland tapar fólki
Segja má að Suðurnes hafi tekið við því forskoti sem höfuðborgarsvæðið hafði áður hvað varðar innanlandsflutninga. Til Suðurnesja fluttust samanlagt 1.485 árin 2007 og 2008 frá öðrum landshlutum. Aðeins á Suðurlandi voru aðfluttir frá öðrum landshlutum fleiri en brottfluttir bæði árin. Í öðrum landshlutum voru brottfluttir í innanlandsflutningum fleiri en aðfluttir þessi tvö ár. Flestir fluttu frá Vestfjörðum (404) og höfuðborgarsvæðinu (343).

Aðfluttir umfram brottflutta eftir landshlutum 2007–2008
2007 2008
  Alls Milli landsvæða Milli landa Alls Milli landsvæða Milli landa
Alls 5.132 5.132 1.144 1.144
Höfuðborgarsvæði 4.258 -355 4.613 1.416 12 1.404
Suðurnes 1.486 938 548 668 547 121
Vesturland 410 23 387 4 -112 116
Vestfirðir -171 -276 105 -2 -128 126
Norðurland eystra -95 -154 59 -21 -88 67
Norðurland vestra 157 -181 338 -5 -114 109
Austurland -1.420 -44 -1.376 -1.213 -157 -1.056
Suðurland 507 49 458 297 40 257

Höfuðborgarsvæðið heldur aftur á móti sínu þegar kemur að millilandaflutningum. Til þess fluttust 6.017 umfram brottflutta frá útlöndum 2007 og 2008 og næstflestir fluttust á Suðurland (715). Aftur á móti fluttust 2.432 frá Austurlandi til útlanda bæði árin.

TalnaefniÖllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1030, netfang mannfjoldi[hja]hagstofa.is

 

Leita Leit

Byggir á LiSA CMS. Eskill -LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi